Árið í ár hefur verið viðburðaríkt bæði meðal hestamanna og þjóðarinnar allrar....Hestapestin raskaði ferðalögum hestamanna framan af sumri og varð til þess að Landsmót Hestamanna var slegið af. Hinsvegar hafa vonandi allir Íslendingar áttað sig á þeirri staðreynd ekki síst þeir  sem eiga dýr að okkur ber að fara mjög varlega ef við komumst í snertingu við búfénað eða komum í fjós eða hestabúgarð  erlendis.

Við gætum lent í því að bera með okkur smit af  hættulegum sjúkdómi. Þetta vita t.d. reiðkennararnir okkar sem eru iðulega útí Evrópu að kenna, þeir eru með föt og skó til skiptanna. Þetta þekkja einnig Íslandshestamenn um víða veröld og fara að öllum leikreglum sem hafa verið settar. Af þessum ástæðum fær hann Sleipnir aldrei að koma aftur til Íslands sé hann seldur úr landi.  Hrossin okkar eru veik fyrir pestum séu þau flutt út eins og t.d. biti frá mýflugum sem ekki þekkjast hér og mættu kallast „vargmýi,“ þær eru valdar að sumarexeminu. Í eitt þúsund ár hefur íslenski hesturinn lifað fjarri heimsins vígaslóð og líkaminn á ekkert mótefni við þessu eitri flugunnar. Við skulum því  ganga varlega um gleðinnar dyr það kostar ekkert. Bann við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti til Íslands snýr ekki síst að dýravernd og matvæla-öryggi. Það er ekki af mann-vonsku að hundar og kettir sem til landsins eru fluttir eru settir í einangrun. Blessaður þing-maður-inn sem fór að býsnast yfir því að hið opinbera varð að leggja til aukið rannsóknarfé útaf hestapestinni verður að átta sig á því að hvar sem menn og dýr þjást kviknar skylda ríkisins að bregðast við. Við höfum séð í gegnum sjónvarpið þegar eldar loga víða í Evrópu þá er faraldur í kúariðu eða gin og klaufaveiki að herja, þá er verið að farga og brenna hræjum af sjúkum dýrum. Hann Sigurður okkar dýra-læknir sem kenndur er við tvennar Keldur og best kveður stemmurnar, faðir hesta-mann-sins fræga Sigurðar í Þjóðólfshaga, er mikill baráttu-jaxl. Sigurður prýðir hornið að þessu sinni og er að kenna litlum tvíburasystrum Þeim Karitas og Sigurbjörgu að kveða „uppí háa hamrinum býr huldukona.“ Sigurður hefur t.d. merkt á annað hundrað grafir þar sem sagan geymir minn-ingar um dýr sem drápust úr miltisbrandi sem getur lifað í hundruð ára í jörðinni. Miltisbrandurinn er svo eitraður að  sé jarðvegi raskað eða gröf opnuð getur faraldur hafist á ný. Miltisbrandurinn er draugasögu líkastur, álög á landi voru þekkt jörðin geymdi eitthvað ógnvænlegt sem ekki mátti hreyfa við. Það var árið 1864 að forfeður okkar vantaði skæðaskinn og inn voru fluttar  stórgripahúðir ógarfaðar frá Afríku. Í húðunum leyndist þessi illræmdi sjúkdómur.  Miltisbrandurinn og margir þessir sjúkdómar sem herja á bæði dýr og menn eru enn hættulegri en draugarnir sem galdramenn settu í legg og stungu í vegg og þeir segja svo góðar sögur af, Bjarni Harðar og Þór Vigfússon.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is