Þá hafa rafvirkjarnir okkar tengt reiðhöllina Búrfellsvirkjun og allt logar af dýrð. Sleipnismenn eru komnir á gæðingum sínum inn í reiðhöllina og máta reiðvöllinn við sjálfa sig og hestinn. Reiðhöllin er opin og frjáls Sleipnismönnum. Í hönd fara dagar án gjaldtöku, dagar þar sem hinn almenni hestamaður í Sleipni fær að prufa að þjálfa hestinn í reiðhöll. Síðan tekur við tímabil skipulagningar og hóflegrar gjaldtöku sem er nauðsynlegt fyrirkomulag til að reka reiðhöllina. Það verður síðan reiðkennslan og námskeiðin ásamt stór hátíðum sem mestu munu skila til félagsstarfsins og félagans. Því er ekkert jafn mikilvægt og hann Einar Öder Magnússon bauð Sleipnismönnum að kenna hinum almenna hestamanni að nýta höllina.

 Fyrsta stórmótið fer fram laugardaginn 5. febrúar næst komandi þá hafa hrossabændur í Villingaholtshreppi hinum forna sótt um að halda folaldasýningu í reiðhöllinni. Það fer vel á því að þeir komi fyrstir Sleipnismanna með stóran viðburð í höllina. Hér áður voru kappreiðavellir Sleipnismanna fyrst í Villingaholti og síðar á hinum sögufræga stað í Hróarsholtsklettum. Folaldasýningar hafa á síðustu árum kallað saman fjölmenni ekki síst með tilkomu reiðhallanna um allt land, þar skoða hestamenn ávöxt sumarsins folaldið sitt sem er að breytast í stolt trippi og fá á það fyrsta dóminn ,,Eigi leyna augu ef ann kona manni,“ segir einhversstaðar sama á við umfolaldið, hestamenn sjá gæðinginn strax út á fasi og framgöngu þess svo ekki sé talað um hvort logar úr augum vilji og þrá eftir krafti. Það munu margir hestamenn gleðjast þennan laugardag og koma saman og verða vitni að fyrsta ævintýrinu í bestu félagsaðstöðu sem Sleipnismenn hafa eignast saman í sögu félagsins. Nú horfa hestamenn mjög á geðslagið það skiptir öllu máli. Fæstir nenna að berjast við þann hrekkjótta sem áður fór manna á milli, að vísu er munur á hrekkjóttum og seinteknum hesti. Oft verður úr gölnum fola góður hestur sögðu gömlu mennirnir. Aðferðirnar hafa líka breyst og þekkingunni fleygt fram, hvernig tamningu skuli hagað og umgengnin við hestinn. Lengi býr að fyrstu gerð sagði gamla fólkið. Þeir Sauðárkróksfeðgar Guðmundur og Sveinn Guðmundsson jarlinn sjálfur sögðu mér að folöld væri gott að taka undan hryssunum í marsbyrjun gera þau hús- og bandvön. Það væri undanbragðalaust kennsla sem fylgdi trippinu inní tamninguna síðar, já nokkurskonar leikskóli fyrir folaldið. Nú þekkja menn vel það lögmál að mýktin sigrar hörkuna. Engum datt það í hug þegar ég var strákur að lítil og grönn hestakona gæti ein járnað baldinn hest, en svona er þetta í dag drengir. Að járna er ekkert karlmannsverk lengur eða áflog. Hestahnúturinn tilheyrir líka fortíðinni og liðnum tíma, hvað þá að þurfi alla sterkustu menn sveitarinnar í útkall eins og við þekktum í gamla daga.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is