Í helgri bók segir „að það ríki meiri fögnuður yfir einum syndara, sem gjörir iðrun en yfir níutíu réttlátum, er ekki hafa iðrunar þörf.“ Enginn mér vitanlega af „útrásardólgunum,“ svonefndu sem rændu og rupluðu bankana innan frá, stálu sparifé með blekkingum hefur enn hneigt höfuð sitt og sagt hið auðmjúka orð, ég biðst fyrirgefningar. Ég ræddi það stundum sem Landbúnaðarráðherra að setja upp grænt innflutningshlið í Keflavík til að minna alla þá á hættuna sem eru að koma úr sveit erlendis og fara í sveit hér heima eða í laxveiðiá. Þar væri til staðar sótthreinsun og fræðsla um áhættuna gagnvart búfénu okkar. Mér er sagt að þeir í Nýja-Sjálandi séu með slíkt hlið og þar séu refsingar þyngri við brotum á smygluðu kjöti og skítugum skóm en að flytja inn eiturlyf. Ég minnist þess einnig frá mínum fyrstu dögum sem ráðherra þegar Jón Guðbrandsson dýralæknir hringdi í mig og sagði mér frá því að hestakerrur fullar af drullu og óhreinindum bærust á Selfoss og gumsinu væri skolaðí sjálfa Ölfusá. Þá var Jóni dýra mikið niðri fyrir og brýndi sveitastrákinn úr Flóanum að taka á honum stóra sínum. Það var gert með hertum reglum og aukinni kröfu um eftirlit. Nú höfum við öll lært þessa reglu og enginn vill taka áhættu sem gæti ógnað lífi bæði manna og dýra með ómældum þjáningum og kostnaði. Hugsjónamennirnir í kringum reiðhöllina eru á fullu þessa dagana að undirbyggja og steypa undir áhorfendasvæðið, síðan ganga þeir í að klára skeiðvöllinn sjálfan og afmarka hann með „fótafjöl.“ Nú hefur fyrrum formaður félagsins Jón Gunnarsson í Miðholti gengið til liðs við hina verkglöðu byggingamenn og tekið að sér byggingastjórn á síðari áfanga reiðhallarinnar. Jón þekkir hamarinn og hamrar lögmálið í lærisveina sína. Sleipnismenn horfa því vonglaðir til þorrans þá munu járn glymja við jörðu, þá fagna hestamenn nýjum reiðleiðum um Flóann og reiðhöllin verður vonandi tekin í gagnið. Það er bjart framundan, Sleipnismenn.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is