Þolreið Kríunnar og Dýralæknaþjónustu Suðurlands verður haldin laugardaginn 10. maí næstkomandi á sveitakránni Kríunni sem er rétt fyrir utan Selfoss. Allir hestar þurfa að gangast undir skoðun dýralæknis fyrir keppni svo einungis heilsuhraustir og áverkalausir hestar frá keppnisrétt. Það eru Krían og Dýralæknaþjónusta Suðurlands sem standa að keppninni ásamt hópi áhugafólks sem vill skapa skemmtilegan viðburð þar sem allir hestamenn geta hist, leitt saman hesta sína og átt skemmtilegan dag. Leiðin er um það bil 13 kílómetra hringur um Flóann þar sem farið verðu bæði eftir vegum og yfir móa og mýrar. Ræst verður í Kríunni sem einnig er endamarkið en dagurinn byrjar þar kl. 11 að morgni með dýralæknaskoðun og morgunkaffi.

Keppni sem þessi hentar öllum hestamönnum, hver sem er getur mætt með sinn hest og hefur fótaburður, keppnisárangur, kynbótamat eða aðrir þeir mælikvarðar sem hestamenn nota oft við mat á gæðum hesta ekkert að segja. Allir sem hafa þjálfað sinn hest vel, þekkja skapgerð hans og vilja ásamt líkamlegri getu og takmörkum geta mætt og átt möguleika á sigri. Keppni sem þessi reynir fyrst og fremst á samspil manns og hests en keppnin skapar einnig þekkingu hjá hestamönnum á að meta ástand og getu hesta sinna og stuðlar því að hestvænni reiðmennsku. Þegar keppendur koma í mark skoðar dýralæknir hestinn, mælir púls og metur hvort hann hljóti refsistig.
Léttleikinn er þó í fyrirrúmi, þolreið er fyrst og fremst skemmtun fyrir þáttakendur og áhorfendur en að keppni lokinni verður slegið upp heljar grillveislu á Kríunni þar sem gleði og tónlist verður við völd fram á kvöld. Hestamenn eru hvattir til að koma og fylgjast með þessum skemmtilega viðburði og eiga skemmtilega stund saman í góðum félagsskap.
Aðalvinningurinn er flugmiði út í heim með Flugleiðum, en að einnig gefa Fóðurblandan og Lögmenn á Suðurlandi glæsileg verðlaun. Að auki styrkir VÍS keppnina með endurskinsvestum sem keppendur klæðast í keppninni og fá að eiga að keppni lokinni. Með því vill Kríubændur og VÍS hvetja hestamenn til að nota þetta öryggistæki þegar skammdegið skellur á í haust.
Byrjað er að taka við skráningum hjá Herði í Kríunni í síma 897 7643 eða í gegnum email hoddi55@gmail.com þar sem koma þarf fram nafn keppanda og símanúmer, nafn hests og fæðingarstaður, litur, aldur, faðir hests og móðir ásamt nafni eiganda. Þáttökugjald er kr. 1.000 á keppanda en þó aldrei meira en kr. 2.000 á fjölskyldu ef fleiri en tveir taka þátt.
Nánari upplýsingar og keppnisreglur er að finna á Facebooksíðunni Þolreið Kríunnar

krian logo-page-001