Nú er hún Guðríður Valgeirsdóttir hestakona á Arnarstöðum hér uppi í horninu,á Hjörvari sínum stórættuðum og flottum.

Hún er nú fremst meðal jafningja í Sleipni sem formaður afmælisnefndar. Hún undirbýr með afmælisnefnd jólahlaðborð og afmælishátíð í Þingborg laugardaginn 28. nóv. n.k.

Það eru liðin áttatíu ár frá því að Sleipnir var stofnaður að Skeggjastöðum. Hátíðin verður í félagsheimilinu Þingborg. Hvet ég fólk til að panta miða sem fyrst í síma 4821030 eða 8940485 eða á netf:gaujav( )simnet.is. þetta verður jólahlaðborðið í ár ódýrt með mat af háborði landbúnaðarins okkar, með söng og sögum,“kúltiverað,“ kvöld með kertaljósum, þar sem fólk getur talað saman. Hún syngur Sleipniskonan hún Hlín Pétursdóttir við undirleik Esterar Ólafsdóttur. Félagsheimilið Þingborg liggur best við sem samkomustaður í héraðinu öllu það er miðsvæðis. Þetta er húsið sem Stefán í Túni byggði með sveitungum sínum og rís einsog kínverskt hof uppaf sléttunni miklu.

 

Í síðasta pistli sagði ég frá því að Landsbankinn og Bókakaffi Bjarna myndu verða með sölu á hlutdeildarskírteinunum en haft verður sérstakt samband við félagsmenn og velunnara Sleipnis. Nú hafa tvö fyrirtæki bæst við Hestavöruverslunin Baldvin og Þorvaldur. ÉG hitti þau Guðmund og Rögnu einn morguninn þetta fyrirtæki hefur starfað í landinu á aðra öld stofnað 1905 flutti á Selfoss 1981 og þau tóku við versluninni 1997 og þjóna sífellt stærri markaði. Þennan morgun voru hestamenn í búðinni,mættir í rauðabítið. Ég lærði nýmæli þegar Daníel í Pulu spurði Ísleif í Kálfholti hvort hann væri eitthvað að „hestast.“

Svo er það Vesturbúðin á Eyrarbakka þeir Agnar og Finnur vilja hjálpa Sleipni. Þeir hafa tekið upp gamla nafnið af gömlu stórversluninni sem Egill Thor lét rífa og notaði efnið til að byggja upp í Þorlákshöfn. Kaffið er gott og menn hlæja saman í Vesturbúðinni og góðar eru gellurnar sem ég var að sporðrenna frá þeim félögum. Eyrarbakki var nánast höfuðstaður Íslands í eina tíð,það munaði Sigga mjóa einsog krakkarnir segja . Hann Ágúst litli í Hraunprýði var ekki gamall þegar hann sat í Vesturbúðinni fluglæs og las fyrir gesti og gangandi 5 eða 6 ára,fékk vínarbrauð og skonroksköku að launum og hrós.

Já við Brúnastaðamenn eigum ættir okkar að rekja niðrá Eyrarbakka. Þar var gaman að vera hestastrákur sagði Ágúst á Brúnastöðum síðar. Enda annálaðir hestamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri,svo eru margir hestamenn að byggja í Tjarnarbyggðinni í ríki Jörundar.

„VIÐ BYGGJUM REIÐHÖLL SAMAN.“

Guðni Ágústsson netfang:gudni.ag( )simnet.is