Nú er búið að fylla sökkulskurðina af grús og þjappa hana.

Þannig að það er ljóst að Reiðhöllin verður á bjargi byggð.

Þeir Vörðufellsmenn áttu lægsta tilboð í smíði sökkulveggjanna og hefja þeir framkvæmdir næstu daga.

Vörðufellsmenn eru eðlilega Skeiðamenn, þannig að þetta verk er í öruggum höndum.

Reiðhallir hestamannafélaganna rísa um allt land. Hörður í Mosfellsbæ vígði glæsilega höll um síðustu helgi. Hinn peningalegi sjóður upp á 330 milljónir sem fór ekki með í sölu lánasjóðs Landbúnaðarins til Landsbankans er að breyta allri aðstöðu hestamanna í landinu.

Áður en þetta mikla átak hófst milli hestamannafélaganna og Ríkisins voru nokkrar reiðhallir byggðar og höfðu sannað gildi sitt.

Ölfushöllin á Ingólfshvoli er ein þeirra. Hún er stór og gegnir mikilvægu félagslegu hlutverki um alla framtíð. Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn var önnur gefin af fjölskyldu Einars Sigurðssonar, útgerðamanns til minningar um son og bróðir, Guðmund Einarsson sem fórst í átakanlegu bílslysi á æskualdri. Reiðhöll Guðmundar hefur sannað gildi sitt. Í sex ár hefur reiðhöllin breytt öllu starfi hestamanna við hið úfna haf. Börn, unglingar og konur setja mikinn svip á starfsemi Háfeta í Þorlákshöfn og gróska í félagsstarfi er meiri en gerist.

Byltingin sem fylgir reið­höllunum er í kennslu reiðmennsku og öryggi í barna- og unglingastarfinu.

Á svæði þessara tveggja reiðhalla eru félögin Háfeti og Ljúfur í Hveragerði og Ölfusi.

Það voru ekki síst Ljúfsmenn með Helgu Rögnu Pálsdóttur í Kjarri í farabroddi sem tókst að ná einstakri samstöðu um reiðvegagerð fjarri hraðbrautinni.

Í Ölfusi eru reiðvegirnir til fyrirmyndar.

Með elju og samtakamætti tókst einstakt samstarf um reiðleiðir sem féllu vel inní aðalskipulag sveitarfélaganna.

Þessi vinna var unnin í samstarfi við Vegagerðina og sveitastjórnir Ölfuss og Hveragerðis í sátt við bændur og landeigendur.

Afrek Hvergerðinga og Ölfusinga í reiðvegagerð er leiðarvísir til Sleipnismanna og annarra hestamannafélaga um fagleg vinnubrögð. Reiðvegir fjarri hraðbrautum í sátt við bændur með góðum hliðum er lykill að öflugra starfi hesta­manna. Það á að fylgja lífinu að læra af þeim sem fremstir fara og mestum árangri ná.

 

Guðni Ágústsson

Netfang: gudni.ag@simnet.is