Daginn er tekið að lengja eitt hænufet á dag í þrjár vikur, gerir það að verkum að við sjáum og finnum mun bæði á morgnana svo ekki sé talað um síðdegis. Ísland á ærinn auð og smátt og smátt mun landið og almættið endurreisa okkur og færa þjóðinni glæst tækifæri. Sleipnismenn hafa horft beint framá veginn, síðasta ár var ár nýrra hugsjóna að búa félagið þannig til bardaga að það væri í fremstu röð. Allt sem hestamaðurinn þarf að hafa aðgang að er nú að komast í höfn hér á Selfossi.

Reiðhöllin er að verða fullbúin og verður tekin í gagnið næstu daga. Sleipnismenn eru það félagslyndir og þakklátir fyrir sjálfboðastarf og fjárstuðning við byggingu hallarinnar að fyrstu vikurnar verða alveg fríar fyrir félagsmenn til að máta sig og gæðinginn við skeiðvöllinn og reiðhöllina. Síðan tekur við nýtt tímabil þar sem hestamenn borga lágmarksgjald fyrir notkun hallarinnar, og ég trúi að hver klukkustund frá morgni til kvölds verði nýtt annarsvegar af félögum Sleipnis eða atvinnumönnum. Kennarar í reiðmennsku munu í gegnum námskeið og fræðslu uppfræða og stuðla að betri hestamönnum um leið og nýtt fólk gengur hestamennskunni á hönd. Reiðhöllin verður jafnframt félagsheimili þar sem hátíðir verða haldnar og sýningar settar upp. Á sama tíma og sjálfboðaliðarnir hafa púlað í höllinni hafa aðrir unnið að einu stærsta hagsmunamáli Sleipnis og hesthúsabyggðarinnar á Selfossi, reiðvegagerðinni. Einar Hermundsson bóndi í Egilsstaðakoti hefur farið fyrir reiðveganefnd félagsins, reiðveganefndin hefur gert Sleipnismenn á Selfossi frjálsa með nýjum reiðvegum út úr hesthúsabyggðinni. Hvert vandamálið af öðru er leyst nú geta hestamenn riðið Glymskógaleið stuttan hring austan við Selfoss. Reiðvegur með Gaulverjabæjarvegi var lagfærður niður fyrir Sölvholt. Vegagerðin áætlar að gera reiðbraut með Gaulverjabæjarveginum niður að sjó. Nefndin hefur skapað Stokkseyringum reiðveg og frelsi útúr þorpinu. Ennfremur hefur nefndin unnið að því að gera frábæra leið austur um og í gegnum Sölvholtsland,um Arnarstaði og Arnarstaðakot, Læk og Vola allt að sjö kílómetrum að lengd sem skapar hestamönnum frelsi út á víðáttuna miklu í Flóanum. Þökk sé Einari og hans vösku mönnum þeir eru þyngdar sinnar virði í gulli, enda er Einar sjálfur hér uppí horninu að þessu sinni. Þakkir skulu færðar landeigendum þessara jarða fyrir samvinnu og skilning á þýðingu þess að hestamenn geti farið um landið eftir öruggum og friðsælum reiðvegum. Hvað er þá til staðar Sleipnismenn? Hér er reiðhöll, hér er frábær leikvangur að Brávöllum allt við hliðina á vaxandi hestahúsabyggð.  Hér eru reiðleiðir. Hér er Fjölbrautaskóli með kennslu á hestabraut. Hér eru öflugir búgarðar hestamanna allt í kringum Selfoss með landsins færasta fólki. Hér er sem sé að verða til Hliðskjálf Óðins sem hinum áttfætta Slepni reið forðum, nýtt hásæti hestamennskunnar og sér um heim allan. Eitt öflugasta hafnasvæði Íslandshestamennskunnar í veröldinni.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is