Það var skemmtileg stund í Halakoti á sunnudaginn var á folaldasýningu Hrossaræktarfélags Hraungerðishrepps. Yfirfjörutíu folöld voru sýnd á rúmum tveimur tímum, eigendur þeirra voru stoltir leikurinnvar jafn og spennandi. Á sýninguna mættu yfir eitt hundrað manns og aldursbilið ámilli þess elsta og yngsta voru níutíu ár.


Stefán Guðmundsson fyrrum oddviti Hraungerðishrepps og bóndi í Túni lét sig ekki vanta á þessa hátíð fremur en önnur mannamót í sinni veit. Hann er hér uppi í horninu með glampa í augum að taka út gæðingsefni framtíðarinnar. Stefán ríður enn út með Guðjóni frænda sínum í Uppsölum og þegar maður sér þá félaga á reið fer maður að efast um að Flóamenn séu jafn hógværir og af er látið. Það er gustur og gríðarþokki sem fylgir þessum kempum þegar þeir eru komnir í hnakkinn. Hann er talinn hestglöggur hann Steindór Guðmundsson í Hólum en hann var dómari sýningarinnar, ættaður frá Haugi af hesta- og glímumönnum kominn, heyrði engan efast um niðurstöðu hans. Það var Jónas Hreggviðsson semsigraði með glæsifolaldi undan Markúsi frá Langholtsparti. Ennfremur urðu þeir Oddgeirshólabændur sigursælir áttu folöld í öðru og þriðja sæti undan Æsi frá Oddgeirshólum og Kjarna frá Þjóðólfshaga. Vinsældarkosningin féll íhlut Þokku Lokadóttur í eigu Ágústs Guðjónssonar. Þarna kom fram mikið úrval af óvenju fallegum folöldum. Saga hrossaræktar í Hraungerðishreppi hinum forna á sér langa sögu og merka. Búfjárrækt almennt hefur reyndar staðið óvenju traustum fótum í sveitinni í áratugi. Gunnar Bjarnason minn gamli kennari og Hrossaræktarráðunautur fjallaði í bók sinni Ættbók og Saga um hrossaræktina í Hraungerðishreppnum. Hrossaræktarfélagið var stofnað 1913 þannig að snemma beygðist krókurinn að ræktun og árangri í þessari sveit. Gunnar nefnir tvo sterka hesta til sögunnar þá Berghyls-Brún og Kára frá Grímstungu sá fyrri ríkti frá 1927 til 1937 en síðari frá 1937 til 1948. Hann gefur þeim þessa umsögn: Með Berghyls-Brún fer stofninn í Hraungerðishreppi að fá mótaðan svip en Brúnn var með bestu stóðhestum landsins. Gaf meðalstór jafnvaxin prúð og geðgóð en þó skapmikil og viljagóð hross. Liðug í hreyfingum og fjölbreitt í gangi. Síðar kemur Kári andstaða Brúns glæsilegur klárhestur. Hann spillti að vísu skapgerð hrossanna og reiðhestakostum þeirra. En á meðan afkvæmi hans settu sterkastan svip sinn á hross sveitarinnar voru þar einhver glæsilegustu hross landsins háreist og hálslöng og „Arabísk í sköpulagi.“ Svo mörg voru þau orð en þetta lýsir vel fast að hundrað ára sögu í minni gömlu sveit. Niðjar gömlu bændanna eru enn að og nýjar ættir komnar á einstaka bæ. Hrossabændur og góðir reiðmenn konur og karlar setja sterkan svip á þessa sveit. Verkefnið er enn það sama og frumherjanna að rækta falleg og hæfileika rík hross. Enn ríður Brúnn eða Kári í garð í nýjum tískuhesti sem breytir stofninum sterka.

 

Guðni Ágústsson

gudni.ag@simnet.is