Helgin var stór hjá Sleipnismönnumá Brávöllum þar fór fram íþróttamót félagsins. Það gladdi margan að sjá á þessu opna móti hvað Sleipnismenn voru vel ríðandi og komu vel undan vetri. Íþróttamót er uppgjör knapanna þannig að mörgum hitnar í hamsi og tár gleðinnar falla og einhverjir missa af tækifærinu eins og gerist. Brekkurnar voru fullar af bílum hlið við hlið margir þéttsetnir allt í kringum völlinn. Mótið vel sótt margir keppendur og sjálfboðaliðar að störfum. Hún Elsa Magnúsdóttir á Sólvangi var mótstjóri stýrði mótinu faglega í hennar liði voru ungir strákar sem allir eru að gera það gott í hestamennskunni, margir frændur mínir. Ég var staddur uppá Hallandaengjum í Hraungerðishreppi og sat úti við þegar ég tók að heyra rödd eins og af himnum sem var að lýsa knöpum og góðhestum. Í fyrstu vissi ég ekki hvað var að gerast hélt að ég væri að verða vitni að undri miklu en loks þekkti ég rödd þularins Pjeturs Pjeturssonar á Sólvangi. Mér þótti honum farast verkið vel og notalegt að hlusta á hann. Hann var að vísu tengdur hátalarakerfi það rifjaði upp fyrir mér gamla sögu úr sveitinni en þar þurftu ekki allir hátalarakerfi svo raddmiklir voru menn áður fyrr. Hátalarakerfi var auðvitað ekki til í þá daga og ekki heldur á Alþingi á Þingvelli í fornöld. Hann Ásgeir heitinn Þórarinsson vörubílstjóri á Selfossi var alinn upp á Brúnastöðum hann var glettinn og fór snemma að gera vísur. Einhverju sinni var hann að flytja mjólkina fram að Litlu-Reykjum þá tók hann að heyra róminn í Páli bónda Árnasyni sem hafði óvenju hljómmikla rödd sem heyrðist á milli bæja. Þá orti Geiri þessa vísu.

Heyrist glymja hátt við ský
hugur fylgir máli.
Það er fár og ósköp í
orðunum hjá Páli.

Margt bar til tíðinda á Sleipnismótinu sem verður mönnum minnisstætt þar háðu margar stór stjörnur einvígi sáu og sigruðu. Hún Olil Amble var með stórsýningu á Kraflari frá Ketilsstöðum og sigraði bæði í  tölti og fjórgangi. Einvaldurinn Einar Öder Magnússon sem kom á hinum mikla Glóðafeyki frá Halakoti varð að sætta sig
við annað sætið. Svo gerðust þau undur og stórmerki að sjálfur meistarinn Gunnar Arnarsson skoraði ungu mennina á hólm í 100 metra skeiði á Lilju frá Dalbæ, sá „gamli,“ hafði engu gleymt og sigraði á tímanum 8,11. Ungur knapi og full menntaður Tungnamaður í dag en fæddur Selfyssingur Sólon Morthens vann fimmganginn á Fræg frá Flekkudal, glæsilegt. Ennfremur getur Haukur Baldvinsson brosað útí annað en Falur frá Þingeyrum skilaði honum 9,0 í skeiði hjá öllum dómurum. Dagmar Öder Einarsdóttir í Halakoti var efst í unglingaflokki í samanlögðu, eplin falla sjaldan langt frá eikinni en móðir hennar hún Svana var einnig að keppa eins og faðirinn
hún var með á Glódísi frá Grjóteyri. Ég sá að Páll Bragi Hólmarsson reið Snæsól til leikanna með góðum árangri
það minnir á Náttsól sem var kona í Njálu gæti líka verið nafn á fallegri hryssu.

 Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is