Kuldakast hefur sett strik í reikninginn og seinkað vorinu. Svo skall á okkur eitt eldgosið enn og það öskugos úr Grímsvötnum. Að það hefði orðið myrkur um miðjan dag þótti manni ósennilegt þegar gamla fólkið var að segja frá Kötlugosinu 1918 . Ég man að faðir minn sagðist hafa orðið að nánast skríða heim í myrkri um miðjan dag ásamt félaga sínum eftir sauðagötunum í Brúnastaðanesinu til bæjar svo svart var það. Auðvitað hélt maður að þetta væru ýkjur og minningin hefði magnað atburðinn. Nú hafa þeir reynt þetta Skaftfellingar og að auki kolniða-myrkur um miðjan dag sem sjónvarpsmennirnir skýra okkur frá. Sá mikli eldhugi Ómar Ragnarsson sem hefur horft á 23 eldgos um ævina og enginn maður kann og þekkir Ísland jafn vel og hann. Ómar segir þetta mesta eldgos sem hann hafi séð hann var ekki stór í Heklugosinu 1947 en áhuginn þá þegar kviknaður hjá sex ára dreng í Reykjavík.

Hann segir að eldstöðin í Grímsvötnum sé ein af sjö þekktustu og merkilegustu gosstöðvum á jörðinni ofan sjávar þar sem eldur og ís mætast. Ómar er óvenjulegur fréttamaður sem var þyngdar sinnar virði í gulli þegar náttúru hamfarir steðjuðu að og reyndar enginn maður kynnt Ísland jafnvel og hann í gegnum linsuna og blessuð Frúin reyndist honum góður reiðskjóti þegar mikið lá við. Hitt skulum við svo vona að þetta eldgos standi stutt og brátt skíni sól í heiði,að vísu geri áður steypiregn sem skoli öskunni ofaní svörðinn og  til sjávar. Á þessu svæði eru stór sauðfjárbú áhyggjurnar snúa að því hvernig fer afrétturinn út úr öskufallinu verða túnin nothæf í sumar hvernig þróast þetta á næstu dögum. Hugur allra íslendinga er með fólkinu sem nú heyjir heljarstríð við náttúruöflin við að bjarga sér og sínu búfé. Sleipnismenn hafa lokið við að baða sín hross í Stokkseyrarfjörunni en í áratugi hefur slík ferð verið farin. Hér áður voru klárar oft með flórlæri og ekki eins vel fóðraðir og í dag þannig að þá var sundferðin enn mikilvægari. Og þá eins og nú voru karlar í krapinu sem sundriðu gæðingum sínum,en hestamennskan er list mýktarinnar þannig að ég hugsa að konurnar séu ekki síðri að leggja gæðingingum sínum til sunds. Á hinu forna og nýja höfuðbóli Óseyri tóku Íris og Karl á móti sextíu manns með heitri súpu að baðferð lokinni. Hefðu mátt vera fleiri í baðtúrnum því þegar Flosi reið til Bergþórshvols 1011 í hina illræmdu  brennuferð voru þeir eitt hundrað og tuttugu talsins. Kári einn komst út úr eldhafinu,gott nafn á gæðing Kári,já og Flosi eftir að ég tók hann í sátt. Bæjarstjórn Árborgar skynjar það mikla afl sem í Hestamannafélaginu Sleipni býr og þau Eyþór Arnalds og Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri hafa undirritað mikilvægan samning við félagið um mótsvæðið á Brávöllum og klósettaðstöðuna í reiðhöllinni. Það bæjar- eða sveitarfélag sem skynjar aflið sem býr í öllum þeim hugsjónaríku félögum sem starfa að íþróttum og félagsmálum og kemur til móts við starfið ekki síst æskulýðsstarfið og framtíðaruppbyggingu mannvirkja er að rétta sjálfboðaliðum örvandi hönd. Hafið heila þökk Árborgarmenn.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is