Til félaga í Landsambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda
Skagafirði 18. maí 2016 Tilvísun: MAST1605235
Áhættumiðaðar smitvarnir í hestamennsku
Til að efla forvarnir og beina þeim þangað sem þörfin er mest hefur Matvælastofnun metið hættuna á að ólíkir hópar hestamanna og annarra ferðamanna beri áður óþekkta smitsjúkdóma í íslenska hrossastofninn.
Mest áhætta fylgir íslenskum atvinnumönnum í greininni sem starfa að einhverju leyti erlendis. Atvinnumenn búsettir erlendis sem hafa eða tengjast starfsemi hér á landi koma þar á eftir. Mestar líkur eru á að þessir hópar fólks umgangist hross hér á landi innan tveggja sólarhringa frá því þeir voru í umhverfi hrossa erlendis. Ferðir þeirra – og þá einkum íslenskra atvinnumanna - eru gjarnan skipulagðar þannig að lítill tími gefst til fullnægjandi hreinsunar og sótthreinsunar á fatnaði og skóm fyrir komuna til Íslands. Þá eru þeir líklegastir til að vera í hestafatnaði eða með hann með sér og til að flytja með sér annan notaðan búnað, þó hið síðarnefnda sé með öllu bannað.
Þrátt fyrir að þeir sem hafa atvinnu af hestamennsku eigi í raun mest undir heilbrigði hrossastofnsins, vantar töluvert upp á að þeir fylgi settum reglum um smitvarnir. Þetta endurspeglast að nokkru leyti í því að möguleiki á fatahreinsun sem komið var á í Leifsstöð, eftir að faraldur smitandi hósta reið yfir landið, er lítið sem ekkert notaður. Alltof margir freistast til að setja sér eigin reglur sem eru ekki fullnægjandi og brjóta í bága við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
Atvinnumenn í greininni bera ekki bara ábyrgð á sjálfum sér. Þeir þurfa stöðugt að uppfræða viðskiptavina sína um gildandi reglur um smitvarnir enda eru viðskiptavinirnir öðrum líklegri til að koma til landsins sem „hestaferðamenn“ eða til að prófa hesta. Sömuleiðis bera þeir sem stunda hestatengda starfsemi ábyrgð á að vinnufólk erlendis frá og samstarfsaðilar fylgi settum reglum.
Forsvarsmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu og hrossaræktendur þurfa að sjá til þess að þeirra viðskiptavinir fái reglur um smitvarnir strax við bókun ferða og annarra heimsókna. Það er of seint að ætla sér að ná til þeirra eftir að þeir eru lagðir af stað í ferðalagið.
Þrátt fyrir góðan vilja tollvarða og reglulega fræðslufundi um þetta efni, er ekki hægt að treysta á að þeir nái að stöðva alla farþega með óhreinan fatnað eða annan búnað úr umhverfi hesta erlendis.
Samstillt átak allra sem hafa atvinnu af hestum eða hestamennsku er nauðsynlegt til að standa vörð um heilbrigði íslenska hrossastofnsins.
Reglur um smitvarnir eru aðgengilegar á rafrænu formi á heimasíðu Matvælastofnunar: www.mast.is undir flipanum upplýsingar fyrir hestamenn. Þar er einnig að finnan rafrænan bækling á ensku og þýsku sem hægt er að sækja og senda viðskiptavinum. Þá ætti bæklingurinn að vera á áberandi stað á heimasíðum allra fyrirtækja og einstaklinga í hestatengdri starfsemi.
Virðingarfyllst f.h. Matvælastofnunar
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma
Austurvegi 64 • 800 Selfossi • Sími 530 4800 • Fax 530 4801 • www.mast.is • mast@mast.is
Áhættuflokkun:
1. Íslenskir atvinnumenn sem starfa að einhverju leyti erlendis
a. Reiðkennarar
b. Sýningaknapar, þjálfarar
c. Járningamenn, dýralæknar, dómarar o.fl.
d. Hrossaræktendur, markaðsmenn
2. Erlendir atvinnumenn sem starfa eða tengjast starfsemi hér á landi
a. Hrossakaupmenn
b. Reiðkennarar
c. Járningamenn, dýralæknar, dómarar o.fl.
d. Starfsmenn á íslenskum hrossabúum, hestaleigum o.fl.
3. Erlendir hestaferðamenn
a. Landsmót, önnur mót
b. Hestaleigur, reiðskólar
c. Sveita ferðamennska
4. Íslenskir hestaferðamenn
a. Heimsmeistaramót og önnur mót erlendis
b. Heimsóknir á hestabúgarða erlendis
5. Almennir ferðamenn
a. Íslenskir
b. Erlendir
Austurvegi 64 • 800 Selfossi • Sími 530 4800 • Fax 530 4801 • www.mast.is • mast@mast.is
I. Reglur um smitvarnir
Reiðfatnaður og reiðtygi
Vegna landfræðilegrar einangrunar og strangra innflutningsreglna hefur Ísland sloppið að mestu við alvarlega smitsjúkdóma í dýrum. Það er skylda okkar að standa vörð um góða sjúkdómastöðu og leita allra leiða til að hindra að varhugaverð smitefni berist til landsins.
Þegar ferðast er milli landa er nauðsynlegt að gæta ýtrustu smitvarna!
• Óheimilt er að flytja til landsins: Notuð reiðtygi, s.s. hnakka, beisli, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv. Notaða reiðhanska
• Þvottur og sótthreinsun: Notaðan reiðfatnað skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug áður en komið er til landsins Notaðan reiðfatnað sem ekki er hægt að þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug, skal hreinsa og sótthreinsa með eftirfarandi hætti: Þvo mjög vel með sápuvatni Þurrka Úða með 1% VirkonS® (10g í hvern lítra af vatni) Geyma í a.m.k. 5 daga áður en búnaðurinn er notaður í umhverfi hesta hér á landi
• Hestamenn sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins geta framvísað óhreinan reiðfatnað í „rauða hliðinu“ í tollinum í lokuðum plastpokum. (Með reiðfatnaði er átt við reiðbuxur hverskonar, reiðjakka, –úlpur, -skó, –stígvél og -hjálma en þessa þjónustu má einnig nýta fyrir annan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis . Ekki er þó tekið við leður- og vaxjökkum.) Viðkomandi hestamenn skulu gera vart við sig í „rauða hliðinu“ í flugstöðinni og framvísa fatnaðinum þar til tollvarða. Tollverðir sjá til þess að fatnaðurinn, ásamt upplýsingum um eiganda, fari í sérstaka kassa sem þeir hafa í sinni vörslu þar til þeir eru sóttir af fatahreinsuninni. Að lokinni hreinsun verður fatnaðurinn sendur í póstkröfu til eiganda.
Komi farþegar með óhreinan reiðfatnað í græna hliðið við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eða verði vísir að því að vera með óhreinan reiðfatnað við tollskoðun í græna hliðinu, verður litið á slíkt sem smygl. Varningurinn er þá gerður upptækur og viðkomandi kærður. Sama á við um sendingar sem innihalda óhreinan reiðfatnað og koma til landsins með pósti, skipa- eða flugfrakt.
Ráðstöfun þessi tekur ekki til notaðra reiðtygja, reiðhanska eða annars búnaðar sem notaður hefur verið í hestamennsku enda er innflutningur á slíkum varningi óheimill.