Mánudagskvöldið 25.maí síðastliðið var haldin framboðsfundur með öllum framboðum í Árborg um málefni hestamanna.
Fundurinn var vel sóttur af framboðum og hestamönnum.
Líflegar umræður sköpuðust og ýmis sjónarmið komu fram.
Hér fyrir neðan fylgir fundargerð fundarins sem var rituð af Torfa Ragnari Sigurðssyni.
Félagsfundur haldinn í Hlíðskjálf 25. maí kl. 20:00/ með frambjóðendum í sveitarstjórnarkosningum í Árborg 2010. 1) Setning/ Árvarp formanns Hestamannafélagsins Sleipnis
Þórdís Ólöf Viðarssdóttir formaður tekur til máls og ávarpar samkomuna.
Þórdís stingur uppá Guðmundi Lárussyni sem fundarstjóra og Torfa Ragnari Sigurðssyni sem ritara fundarins. Engar athugasemdir gerðar við þá skipan og taka þeir til starfa.
Þórdís fer yfir starfsemi félagsins. Þórdís bendir á að hestamennskan sé önnur fjölmennasta greinin innan HSK. 800-900 hross rúmast í hverfinu. Iðkendur í hverfinu eru um 250-350.
Þórdís fer yfir það sem hefur gerst í reiðvegamálum við hverfið undanfarin ár. Hún fer yfir stöðuna eins og hún er, en hún er ekki góð í dag. Öflugt félagsstarf er í félaginu. Fram kemur í máli hennar að íþrottamannvirki félagsins eru glæsileg.
Enn eitt íþróttamannvirkið er að rísa á vegum félagsins en það er reiðhöllin. Gott starf hefur verið unnið í sjálfboðavinnu við höllina.
2) Reglur kynntar
Guðmundur Lárusson fundarstjóri tekur til máls og ávarpar samkomuna. Hann fer yfir það fyrirkomulag sem verður á fundinum.
Hvert framboð fær í upphafi 8 mínútur í framsögu. Fundarstjóri verður með miða sem gefa frambjóðendum til kynna hversu langan tíma þeir eiga eftir. Að framsögum loknum verða leyfðar fyrirspurnir. Hver fyrirspyrjandi fær 2 mínútur. Að þeim loknum fá frambjóðendur tækifæri til að svara fyrirspurnum en verða þær að hámarki 3 mínútur. Að lokum þá verða leyfðar fyrirspurnir frá fundargestum en nú í 1 mínútu. Svör verða leyfð frá frambjóðendum að hámarki 1 mínúta.
Þá draga frambjóðendur spil um það hver skuli byrja.
3) Framsögur frambjóðenda Eyþór Arnalds og Ari Thorarensen fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Eyþór tekur til máls. Hann fagnar því að verið sé að taka þetta mál hér fyrir. Eyþór telur að í svæði hestamanna felist ýmis sóknarfæri.
Eyþór fer yfir reiðhöllina og fagnar því sjálboðastarfi sem þar hefur farið fram. Fleiri jákvæða hluti bendir hann á í þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Tjarnarbyggðinni.
Það neikvæða sem hann telur hafa gerst á síðasta kjörtímabili er fyrst og fremst það að reiðleiðir útúr hverfinu hafi smá saman lokast. Þá telur hann að fasteignagjöldin hafi hækkað mikið á kjörtímabilinu. Hesthúsaeigendur séu flokkaðir í C-flokki, þrátt fyrir að svo sé ekki í öllum sveitarfélögum. Eyþór bendir á að forgangsverkefni sins flokks sé að vinna að því að lækka fasteignagjöld. Ekki bara á hesthúsum heldur almennt í sveitarfélaginu.
Eyþór bendir á að það sé sett íslandsmet í fasteignagjöldum í Sveitarfélaginu Árborg. Eyþór telur að eins og staðan er í dag þá sé skortur á því að hesthúsaeigendur fái eitthvað endurgjald fyrir þau gjöld sem eru innheimt á þá. Eyþór telur að hægt sé að breyta fasteignajöldum úr C-flokk í A-flokk. Hann bendir á þessi leið sé m.a valin í Hafnarfirði, þrátt fyrir að Samfylkinginn sé þar við völd.
Eyþór bendir á að gott samstarf hafi verið með Sleipni og sveitarfélaginu í áætlunargerð um reiðvegi. Hins vegar telur hann að nokkuð skorti á um að þessari áætlun sé framfylgt. Eyþór telur að staðsetning hverfisins, þ.e. staðsetningin á landsvísu feli í sér mikil sóknarfæri. Eyþór telur að ef við missum sjónar af því sem við gerum best þá séum við í miklum vandræðum.
Eyþór telur að tækifæri þessa svæðis felist í landbúnaði og matvælavinnslu. Eyþór fagnar þeim dugnaði sem er í félaginu. Hann telur að þetta sé tákn um bjartsýni og von. Þá biður hann Ara Thorarenssen að taka sitt svæti og svara fyrirspurnum.
Ragnheiður Hergeirsdóttir og Kjartan Ólason fyrir Samfylkinguna
Ragnheiður tekur til máls og fagnar fundinum. Telur það gott framtak að boða til fundar sem þessa. Ragnheiður ætlar að fara yfir fleiri atriði en bara þau sem snúa að hestamönnum.
Ragnheiður fer yfir fjármál sveitarfélagsins. Ragnheiður bendir á að vel hafi tekist til að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og mikilvægt sé að halda þeirri góðu vinnu áfram. Ragnheiður fer yfir helstu tekjustofna sveitarfélagsins. Þá fer hún yfir muninn á sköttum og þjónustugjöldum og bendir á að mikilvægt sé að þjónustugjöld séu ekki hærri en þörf krefur. Ragnheiður bendir á að færsla fasteignagjalda í C-flokk sé bundinn í lög. Ragheiður bendir á að önnur sveitarfélög séu með þetta í öðrum flokki. Hún telur að það sé ótækt að mikill munur sé á því á milli sveitarfélaga í hvaða flokki hesthúsin lendi og telur hún að mikilvægt sé að það verði skorið úr því almennt hvar hesthúsi eigi að vera, þ.e. í hvaða flokk.
Ragnheiður telur mikilvægt að hugað sé að ungliðastarfi í hvaða félögum sem er. Ragnheiður telur að það sé mikilvægt að vel sé haldið utan um barna og unglingastörf. Hún telur að gott samstarf hafi verið á milli félagsins og sveitarfélagsins í þessum málaflokki.
Ragnheiður telur að það þurfi að styrkja atvinnulífið á svæðinu. Ragnheiður telur að þurfi að auka fjölbreytini til vinnu á svæðinu.
Ragnheiður fer yfir það góða starf sem að hún telur að verið sé að vinna við reiðhöllina.
Kjartan Ólason tekur til máls. Kjartan bendir á að árið 1971 hafi verið samþykkt fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins. Hesthúsahverfið var fyrsta deiliskipulagið sem var samþykkt á grunni aðalskipulagsins.
Kjartan fer yfir reiðvegamál við hverfið. Hann telur að það sé ekki satt að það sé lokað útúr hverfinu. Hann bendir samt sem áður á að það sé ekki gott aðgengi útúr hverfinu.
Kjartan bendir á að nauðsynlegt sé að fá færslu á reiðveginum meðfram Gaulverjabæjarvegi. Kjartan bendir á að nauðsynlegt sé að fá aukið samstarf við Flóahrepp og byggja upp reiðvegi þar.
Kjartan vill að fleiri verði kallaðir að málefnum um reiðvegi. Hann vill að það verði sett á laggirnir samstarfsnefnd með sveitarfélaginu, Vegagerðinni, Sleipni, landeigendum og hugsanlega samgönguráðuneytinu.
Bjarni Harðarson fyrir Vinstri Græna
Bjarni Harðarson tekur næst til máls. Bjarni fer yfir það að hann hafi farið um svæðið undir góðri leiðsögn fyrir nokkru síðan. Bjarni bendir á að við séum stödd á fundi þar sem tekið er á nokkuð brýnu vandamáli. Bjarni tekur það fram að það sé mikilvægt fyrir sveitarfélagið að geta staðið á þeirri fullyrðingu að sveitarfélagið sé góður staður fyrir hestamenn.
Bjarni bendir á að það sé skýr krafa að þetta sveitarfélag sé góður valkostur fyrir hestamenn. Bjarni telur að brýnasta verkefni sé að leysa aðgengið útúr hverfinu. Þar þarf einnig að horfa til framtíðar ásamt því að leysa ákveðinn bráðavanda. Bjarni bendir einnig á að þetta kosti allt peninga og að sé mikilvægt að fara vel yfir það hvernig þeim peningum sé eytt.
Bjarni bendir á að fjármál sveitarfélagsins séu ekki slæmum málum miðað við mörg önnur sveitarfélög. Bjarni bendir á að við séum ekki í gjörgæslu heldur ráðum okkar fjárhagslegu málefnum sjálf. Bjarni bendir á að varlega verði að fara í viðræðum við landeigendur.
Bjarni fjallar um að að það þurfi einnig að vinna að því að lækka ökuhraða ökutækja á Gaulverjabæjarvegi. Þá bendir Bjarni á að skoða þurfi samstarf við aðliggjandi sveitarfélög um uppbyggingu reiðvega. Mikilvægt sé að byggja upp reiðleiðir inní Flóahrepp.
Bjarni fer næst yfir fasteignagjöldin sem eru lögð á hesthús. Hann bendir á að hluti af þessum húsum séu frístundahús en önnur eru atvinnuhúsnæði. Bjarni vill ekki lofa því að þessi gjöld verði lækkuð. Hann telur það vera ábyrgðarhluta að lofa ekki slíku, en þetta sé hins vegar eitthvað sem þarf að skoða. Bjarni bendir á að það sé ekki eitthvað sem hann vill að við eigum íslandsmet í þeim gjöldum sem lögð eru á íbúa. Bjarni fjallar t.d. um hækkun sorphirðugjalda og ástæður þeirra.
Bjarni fjallar um reiðhöllina og það góða starf sem þar hefur verið unnið. Þetta sé merki um þann gríðarlega kraft sem býr í þessu félagi. Bjarni villa ð það sé hlúð að þessum hlutum. Bjarni telur mikilvægt að gott samstarf sé á milli sveitarfélagsins og hestamanna.
Helgi Haraldsson fyrir Framsóknarflokkinn
Helgi tekur til máls. Hann fer í stuttu máli yfir það sem framboð Framsóknarflokksins hefur uppá bjóða. Helgi bendir á að breiður hópur standi að framboðinu. Helgi fer yfir að frambjóðendur hafi heimsótt vinnustaði á svæðinu og lært mikið af því. Helgi telur að á þeim fundum hafi komið ítrekað fram að samráð skorti við íbúa um hin ýmsu mál.
Helgi telur mikilvægt að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast til samráðs við íbúa sveitarfélagsins.
Helgi bendir á að hann hafi undanfarið verið með hross í hverfinu. Helgi fjallar um að hann hafi orðið var við þann vanda sem standi að hverfinu varðandi reiðleiðir. Hann treystir því að reynt hafi verið að finna lausnir en það hafi ekki gengið. Helgi bendir á að það sé komin ný reiðveganefnd hjá Sleipni sem sé að vinna að þessu máli í samstarfi við sveitarfélagið. Þá bendir Helgi á að ákveðinn vandi stafi að því að lönd hafa verið keypt upp í grennd við hverfið. Helgi telur að það verði að horfa til framtíðar í þessum efnum og stefna að því að finna skynsamlegustu lausnina og þá gera það í sameiningu. Helgi bendir á að ákveðnir samningar séu í gildi milli hestamannafélagsins og sveitarfélagsins. Helgi hefur kynnt sér þessa samninga að hluta.
Helgi bendir á að hans skoðun sé sú að hestamennska sé mikilvægur partur af því samfélagi sem við búum í. Helgi bendir á að verið sé að borga rúmlega 800 þús. krónur til ungliðastarfs í félaginu. Þá bendir Helgi á að ef að félaginu tekst að verða fyrirmyndarfélag ÍSÍ þá fá félagið 700 þús. króna eingreiðsla frá sveitarfélagnu til viðurkenningar á því ásamt því að fjárframlög aukist til muna.
Helgi bendir einnig á að mikilvægt sé að hestamenn líti á sitt félag sem íþróttafélag.
Helgi bendir á að hann hafi talið á sínum tíma að ekki hefði átt að hækka fasteignagjöldin á hverfinu, þ.e. setja þau í C-flokk. Helgi telur að það eigi að breyta þessu. Hvort sem búinn verði til milliflokkur eða einhver önnur leið valin.
4) Fyrirspurnir
Guðmundur Lárusson fundarstjóri tekur til máls og opnar fyrir fyrirspurnir.
Valur tekur til máls. Valur bendir á að það hafi verið í lögum til margra ára að skolp og frárennsli skuli vera frá Hesthúsahverfum.
Þá bendir Valur á að öll þau sveitarfélög sem hafi hækkað gjöldin og lækkað þau aftur hafi gert það þar sem að þau hafi ekki talið það vera tilgang laganna að hækka álögur á tómstundir.
Svala tekur til máls. Hún fer yfir það að nú séu hestar búnir að vera veikir í hverfinu og það sé nauðsynlegt að rykbinda göturnar í ljósi þess að hestarnir þoli ekki rykið.
Svava tekur til máls. Hún telur að það mikla ryk sem sé í hverfinu sé orðið bæði hestamönnum og skepnum hættulegt og til mikilla óþæginda. Hún bendir á að það sé nauðsynlegt að grípa til aðgerða.
Svandís tekur til máls. Hún spyr hvort að það sé ætlun einhvers framboðs að taka niður skiltið sem að bannar reiðmennsku á eina reiðveginu sem nú liggur útúr hverfinu, þ.e. reiðleiðinni með Gráhellu.
Þórdís formaður tekur til máls. Hún fer yfir þær spurningar sem henni voru sendar af einum félagsmanni.
A) Hvernig skilgreinir þú þinn flokkur hestamennsku Er hún búgrein, íþrótt, annað?
B) Hvaða rök hníga að því að skattleggja hestamenn með mismundandi hætti innan sveitarfélagsins, þ.e. flokka hesthús í A eða C flokki eftir þvi hvar þau standa innan sveitarfélagsin. Er þessi skattstofn á hestamenn tekjulind fyrir rekstur sveitarfélagsins?
C) Telur þú/þinn flokkur rétt að mismuna þegnum sveitarfélagsins með þessum hætti og brýtur það ekki í bága við stjórnarskrá íslands, þ.e. jafnræðisregluna, 65. gr. stjórnarskrárinnar?
D) Hver er ábyrgð sveitarfélagsins í skipulagsmálum gagnvart skipulögðu hverfi eins og hesthúsahverfi Sleipnis í Árborg?
E) Hvað leggur þú/þinn flokkur áherslu á sem skiptir hestamenn í Árborg máli fyrir komandi kosningar?
Árni tekur til máls. Hann spyr hvort að það séu sömu fasteignagjöld í búgarðabyggðinni eins og eru í hverfinu og þá hvort að allir séu undir sama hatti. Þá spyr hann hvort að sveitarfélagið hafi lagt reiðvegi þar. Árni bendir á að vegir séu ekki heflaðir í hverfinu. Það sé eingöngu lagður mulningur í vegina sem hækkar þá og þá lendir fólk í vandræðum með vatnið.
Guðmundur tekur til máls. Hann vekur athygli á því að það sé ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær að slys verða á fólki og skepnum eins og gengið sér frá reiðvegamálum. Hann spyr hvort að það sé beðið eftir því af fyrirsvarsmönnum sveitarfélagsins að alverlegt slys verði á fólki.
5) Svör frambjóðenda
Ari Thorarensen svarar fyrirpsurnum. Ari byrjar á því að svara Val. Hann er sammála því að frárennslis mál séu vandamál og það þurfi að leggja skolp og dren í hverfið. Hann telur brýnt að gengið verði í þetta mál.
Sama segir Ari um fyrirspurnir Svölu og Svövu auðvitað verði að hugsa um þessa vegi eins og aðra vegi í sveitarfélaginu.
Svandísi svarar hann þannig að það verði að finna lausn á þessu máli og vel komi til greina að fjarlægja skiltið.
Fyrirspurnum frá Þórdísi svarar hann eftirfarandi;
- Þetta er íþróttafélag
- Ari bendir á að sjálfstæðisflokkurinn muni klárlega fara að þeim lögum og reglum sem gilda í þessi efni. Það verði að komast til botns í því hvernig eigi að skilgreina hesthúsin. Það þurfi að gæta samræmis. Hann telur þetta eiga að vera í A-flokk.
- Ari telur að vel geti verið að þessi háttur stangist á við stjórnarskrána.
- Ari bendir á að sveitarstjórn beri ábyrgð á skipulagsmálum.
- Ari bendir á að hans flokkur miði að því að finna viðunandi lausnir á málefnum hestamanna.
Ragheiður Hergeirsdóttir.
Þakkar spurningarnar. Tekur undir það með Ara að það þurfi að ráðst í frárennslis mál í hverfinu. Ragnheiður tekur fram að það séu allir sammála því að það þurfi að leysa þessi mál, þ.e. bæði þau sem tengjast ryki á vegum og frárennsli.
Ragnheiður bendir á að reynt hefði að rykbinda völlinn.
Hvort að reiðvegurinn sem var lokað verði opnaður bendir hún að það hafi verið margreint að leysa þenann vanda. Það hafi ekki tekist enþá. Hún fjallar um að reyna þurfi að finna lausn á þessu máli.
Fyrirspurnum frá Þórdísi svarar hún eftirfarandi;
a) Þetta er íþrótt
b) Þessu þarf að koma á hreint, þ.e. gæta þarf samræmis á landsvísu.
c) Sama og í b)
d) Sveitarstjórn ber ábyrgð á skipulaginu.
e) Ragnheiður leggur áherslu á aukið samstarf milli hestamannafélagsins og Sleipnis.
Ragheiður bendir á að sjálfsögðu vill enginn að slys verði á fólki, en það sé mikilvægt að reyna að finna viðunandi lausn á þessum málum.
Bjarni Harðarson
Bjarni bendir á að það sé brýnt að leysa þau lögbundnu verkefni sem hvíla á sveitarfélaginu varðandi frárennsli og annað.
Bjarni bendir á kreppan kallar á það að hlutirnir séu hugsaðir uppá nýtt. Bjarni bendir á að það hafi verið gert í þessu félagi. T.d. reiðhöllinn. Bjarni bendir á að t.d. varðandi frárennslið í reiðhöllinni sé verið að komast að lausn sem er ódýrari en áður hefur verið unnið að. Bjarni bendir á að lausnin geti verið falin í því að semja við hestamenn um aðkomu þeirra að þessum málum. Þetta sé þó sett fram hérna sem tillaga en ekki loforð.
Bjarni spyr hvers vegna skiltið sem lokaði reiðveginu sé ekki tekið niður? Auðvitað á að taka það niður segir hann.
Bjarni bendir á að verktaka yfirgangurinn sem var við líði á uppgangstímum hefur bitnað á hesamönnum á þessu svæði. Það er verkefni að vinna okkur útúr þessum vanda.
Fyrirspurnum frá Þórdísi svarar hann eftirfarandi;
a) Bjarni telur að hestamennska sé of merkilega til að skikka henni á einhvern bás.
b) Bjarni bendir á að það sé mismunandi hvernig hlutirnir eru skattlagðir í þéttbýli og dreifbýli. Vill að reynt verði að lækka öll gjöld, en vill ekki lofa því að það sé hægt í þeim ólgu sjó sem nú steðjar að.
c) Bjarni telur mikilvægt að reynt sé að gæta jafnræðis.
d) Sveitarstjórn ber ábyrgð á skipulagi
e) Bjarni telur sig hafa farið yfir stefnu síns flokks
Helgi Haraldsson
Helgi hefur það stundum á tilfinningunni að allir sé að tala um þessi vandamál, en það sé ekki alltaf á hreinu hvaða boðleiðir gildi í þessum málum.
Nokkuð er hér gripið framí og fjallað um það að það hafi verið mikið hringt í áhaldahúsið og beðið um þetta. Því hafi ekki verið svarað. Það er hins vegar tekið fram að viðmót þeirra sem hafa svarað fyrir þetta hefur verið til fyrirmyndar.
Helgi bendir á að þjónustusamningar eru við íþróttafélög varðandi vallarsvæðið við Engjaveg. Hann bendir á að það mætti skoða slíkt með svæði hestamanna.
Helgi spyr hvers vegna ekki hafi verið unnið að þessum málum fyrr.
Gripið er framí enn á ný og því haldið fram að ástæða þess að ekkert sé að gert sé áhugaleysi sveitarstjórnarmanna.
Fyrirspurnum frá Þórdísi svarar hann eftirfarandi;
a) Hestamennska er allt að þessu, þ.e. búgrein, íþrótt og ýmislegt annað.
b) Helgi bendir á að þeir sem hafa lögbýlisrétt njóti lægri fasteignagjalda.
c) Helgi telur mikilvægt að gætt sé jafnfræðis.
d) Ábyrgðin hvílir hjá sveitarfélaginu.
e) Helgi telur að öðru hafi verið svarað í framsögu.
Helgi fer yfir bendir á að hægt væri að leysa þau vandamál sem lúta að því að þvera akbrautir með reiðvegum sé m.a hægt að gera með því að setja upp ljós. Hann vill að þetta verði skoðað.
6) Frekari fyrirspurnir
Guðmundur Lárusson fundarstjóri tekur til máls og opnar á frekari fyrirspurnir.
Guðmundur bendir á að gert hafi verið samkomulag við sveitarfélagið um þær boðleiðir sem gilda eiga. Þá eru leyfðar stuttar fyrirspurnir úr sal.
Valur tekur til máls. Valur bendir á það að þegar lagt var í nýja götu austan við Hlíðskjálf að þá hafi verið lagt skolp og frárennsli í þá götu. Hann vildi á sínum tíma að þessi lögn yrði lögð í Suðurtröðina. Valur bendir á að það samráð sem sé lofað á þessum fundi muni líklega gleymast að kosningum loknum.
Bent er á úr sal varðandi vökvun sé hægt að nota haugsuguna úr Sandvíkurhrepp. Það sé bara spurning um hver borgi.
Svala tekur til máls að sveitarfélagið sé með girðingu við Bjarkarland en það sé búið að loka á allar reiðgötur og því ómögulegt að komast að því stykki.
Árni tekur til máls og vill meina að það séu starfsmenn á vegum sveitarfélagsins sem eigi að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi.
Valur tekur til máls á ný. Hann líkir því saman að taka þennan reiðveg af okkur sé svipað og ef við hefðum sett upp mark á golfvellinum eða sett golfflöt á fótboltavöllinn. Hann vill meina að stjórnsýslan sé ekki í lagi eins og staðið var að þessu.
Haraldur tekur fram að honum finnist frambjóðendur hafa skautað framhjá spurning um C-flokk fasteignagjalda. Það sé ekkert í lögunum sem segi að hestamenn skuli vera í þessum flokki. Haraldur bendir á að það sé klárlega verið að mismuna íðkenndum íþrótta.
Haraldur bendir á að þetta hafi verið kannað hjá LH og segir hann að það sé afar ljóst að hestamönnum sé mismunað í þessu sveitarfélagi sem er ekki gert annarsstaðar.
Haraldur bendir á að það sé mjög sérstakt varðandi skipulagsmálin að eitthvað sé tekið út án þess að eitthvað annað komi í staðin.
Guðmundur tekur til máls. Hann telur að 15 milljónir komi inn í fasteignagjöld. Hann vill vita í hvað þessi gjöld fara.
7) Lokasvör frambjóðendaAri Thorarensen
Ari þakkar Haraldi fyrir góða ræðu og telur afar óeðlilega staðið að skattlagningu á hesthúsin.
Ari bendir á að það sé ekki langt síðan hægt var að ríða niður á Eyrarbakka á góðum reiðvegi. Það er ekki hægt í dag.
Hann bendir á að þessu sé öðruvísi farið í RVK. Hann telur eðlilegt að reynt sé að bæta þessi atriði. Það sé skipulagsklúður hvernig hefur verið staðið að þessum málum.
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ragnheiður bendir á að þrátt fyrir að henni hafi alltaf dreymt um að eignast hest, þá hefur það ekki enn tekist. Hún skilur ekki hvers vegna reiðvegir hafi ekki getað dafnað í samræmi við íbúðabyggð. Ragnheiður svarar því að það sé ekki sérmerkt eftir hverfum í hvað fasteignagjöldum er ráðstafað.
Ragnheiður bendir á að það sé búið að ræða þessi mál árum saman án þess að það hafi tekist að lenda þeim. Ragnheiður telur nauðsynlegt að það sé útkljáð á landsvísu í hvaða flokki hesthús eigi að vera.
Bjarni Harðarson
Bjarni telur að verði að skýra betur út í hvaða flokki hesthúsin eigi að vera. Bjarni telur að það sé aðalatriði að reyna að lækka þessi gjöld ef við höfum möguleika á því. Það sé hins vegar ekki rétt að lofa slíkum lækkunum hér.
Bjarni hefur ekki trú á því að stjórnmálamenn hafi algjörlega hunsað hagsmuni hestamanna. Hann telur að samstarfið hafi verið gott og hann hafi trú á því að svo geti verið áfram.
Helgi Haraldsson
Helgi telur að það sé jafnfréttissjónarmið að þessi faseignagjöld verði lækkuð. Árið 2008 voru tekjur af hverfinu rúmlega 7 millj. á sama tíma var 6.7 millj eitt í hagsmuni tengda hestamönnum.
Helgi ítrekar það sem áður hefur komið fram hjá honum að skoða það að gerður verði þjónustusamningur við félagið um rekstur á mannvirkjum félagsins.
Helgi tekur fram að þau sem eru núna í framboði séu sammála því að horfa til framtíðar og reyna að koma á breytingum í þessum efnum.
8) Fundi slitið
Að lokum tekur Guðmundur Lárusson fundarstjóri til máls og fer yfir efni fundarins. Hann vonar að allir viðstaddir séu einhvers vísari að fundi loknum.
Guðmundur þakkar fundarmönnum og lýsir fundi slitið.