Fyrir nokkrum árum kom sú hugmynd upp á meðal okkar hestakvenna að gaman væri að halda konukvöld hjá Hestamannafélaginu Sleipni.  Síðasta vetur var ákveðið að koma hugmyndinni í framkvæmd. 

 Það voru Rut Stefánsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir og Margrét Ásgeirsdóttir sem hittust  og skipulögðu konukvöld þar sem þemað var KJÓLAR.  Lagt var upp með að ágóði af Konukvöldinu skyldi renna til barna- og ungmennastarfs innan Sleipnis.    Húsnefndin í Hliðskjálf brást vel við og lánaði húsið án endurgjalds, fyrirtæki á Selfossi (Myrra, Efnalaug Suðurlands, Búvörudeildin, Ostabúðin og Europrice) gáfu happdrættisvinninga og tískusýningar voru frá verslun Baldvins og Þorvaldar og Hosiló á Selfossi.  Boðið var upp á fordrykk en hver kona kom með eitthvað gott á sameiginlegt hlaðborð svo að lokum næstum svignaði borðið undan kræsingunum.  Kvöldið tókst í alla staði frábærlega þar sem Labbi í Glóru spilaði og söng, konur dönsuðu og spjölluðu saman.  Bjarni Harðarson bóksali og fyrrum alþingismaður var ræðumaður kvöldsins og mágkonurnar Hrund Harðardóttir  og Sigríður Runólfsdóttir slógu í gegn með frábæru atriði þar sem þær sýndu og sögðu frá hvað konur þyrftu að hafa með sér í langa hestaferð.  Alls mættu 73 konur á öllum aldri en  síðast en ekki síst má þó nefna hestakonurnar  Immu ( Ingibjörgu Árnadóttur)   og Ingu (Ingveldi Kristmannsdóttur) sem mættu galvaskar í glæsilegum kjólum.  Ágóði kvöldsins var 40.000 kr. sem rann til barna- og unglingastarfs Sleipnis. 

Ný nefnd var skipuð til að endurtaka leikinn og urðu fyri valinu Ingunn Gunnarsdóttir, Elínborg Högnadóttir og Svandís Ragnarsdóttir.   Staðfestur grunur er um að þær hafi þegar hafið undirbúning að næsta Konukvöldi Sleipnis sem mun verða 30.apríl n.k.

Takk fyrir okkur og ánægjulegar  stundir.
Sjá má fleiri myndir inná Myndaalbúm

Rut, Ingibjörg og Margrét