Reiðhallirnar styrkja hestamennskuna sem valgrein í framhaldsskólakerfinu. Í dag hafa skólarnir heilmikið svigrúm fyrir hestamennsku sem fullgilda námsgrein í skólakerfinu. Lögum hefur verið breytt sem ganga útá nýsköpun í námsframboði. Fjölbrautaskóli Suðurlands rekur námsbraut í hestamennsku en skólinn gæti orðið mikil móðurstöð í hestamennskunni ef skólayfirvöld í landinu og heimamenn stigu þau skref til fulls. Öflugir hestabúgarðar og hestamenn eru í héraðinu reiðhallir í eigu einstaklinga og hestamannafélaga skipa fallegan krans um skólasvæðið. Best búni Landsmótsstaðurinn er á Hellu sem gæti orðið nokkurskonar þjóðarleikvangur íslenska hestsins ef eigendur Gaddstaðaflata, hestamenn og sveitarfélög sameinuðu krafta sína eins og nú er rætt um í alvöru. Grunnskólarnir á Suðurlandi yrðu virkjaðir sem valkostur strax í barnæsku alveg eins og tónlistarnám eða val í íþróttum. Það er líka löngu kunn saga að ekkert er heppilegra til að vekja börn og unglinga sem jafnvel funkera ekki um sinn í hefðbundnu námi en valgreinar í verklegu fagi. Hestamennska hefur gert mörg börn og unglinga sem voru afskrifuð í skóla að fagfólki og afreksfólki sem fundu sig í gegnum samskipti við hestinn eða lifandi dýr. Knapamerkjakerfið gerir hestamennskuna að sérlega aðgengilegri kennslugrein fyrir framhaldsskólana. Knapamerkjakerfið styðst við yfirgripsmikið og kerfisbundið námsefni, stöðluð próf, ítarlegar leiðbeiningar fyrir nemendur og kennara um skipulag og framkvæmd kennslu. Gagnvirk upplýsingaog skráningakerfi með gagnagrunni um niðurstöður kennslu og prófa. Hvar stendur þá hnífurinn í kúnni eins og karlinn sagði? Jú lögin og skólakerfið verður að skilgreina hestamennskuna sem blöndu af íþróttalistgrein eða fagurfræði sem jafnframt gefur einstaka tengingu við náttúru og menningu landsins. Rekstrarkosnaður við námið er meiri en í mörgum öðrum greinum þessvegna verða yfirvöld að gera námið fjárhagslega álitlegt fyrir skólana og viðurkenna sérstöðu þess. Í verklegri kennslu framhaldsskólanna er miðað við hópstærð tólf nemenda. Sérstaða hestamennskunnar liggur í að kennarinn er að vinna með tuttugu og fjóra á gólfinu í stað tólf séu hestar og nemendur taldir sem er hið rétta. Ísland er matvælaframleiðsluland í fremstu röð á því lifum við öðru fremur hér, hvað sem þeir bulla sem alltaf eru að gera lítið úr sjávarútvegi og landbúnaði, bónda og sjómanni. Við eigum hinsvegar ýmsa aðra möguleika í t.d. hátækni og vísindum og ferðaþjónustu. Hesturinn skorar hátt í hestatengdri ferðaþjónustu og útflutningi á verðmætum. Framhald svona kennslu í grunn- og framhaldsskólakerfinu er svo nám við Landbúnaðarháskólana á Hólum og Hvanneyri í reiðmennsku og reiðkennslu, og æðra námi. Fólk með réttindi og nám að baki á þessu sviði á mikla atvinnumöguleika að námi loknu við að temja, þjálfa, keppa og útbreiða boðskapinn um íslenska hestinn. Þarna á Suðurland sérstöðu og gullið tækifæri.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is