Laugardaginn 12 júní lagði Æskulýðsnefnd Hestaíþróttafélagsins Sleipnis á Selfossi upp í sumarferð. Það hefur lengi verið draumur okkar í æskulýðsnefndinni að fara í hestaferð með vanari knöpunum okkar og frábært að geta loksins látið verða að því. Það eru nefnilega ekki allir sem hafa aðstöðu og búnað til að fara í ferð eins og þessa, en með samheldni og aðstoð foreldra var hægt að framkvæma ferðina sem tókst í alla staði vel. Í hópnum voru 14 krakkar frá Selfossi og nærsveitum, á aldrinum 10-15 ára, sem eru félagsmenn í Sleipni og æfa hestaíþróttir með félaginu. Var tilgangur ferðarinnar að leyfa krökkunum að upplifa og njóta umhverfisins og góðra reiðleiða í nágranna sveitarfélögum okkar. Í ferðinni voru einnig foreldrar og nefndarmenn æskulýðsnefndarinnar, ásamt því að við fengum Stefán Jónsson frá hestamannafélaginu Háfeta í Þorlákshöfn til að lóðsa okkur leiðina.
Lagt var í hann frá Hafinu Bláa í Ölfusi og riðnar svokallaðar flæður í Ölfusárósnum, að Hraunsvegi þar sem haldið var yfir í Þorlákshafnar fjöruna og hún riðin til Þorlákshafnar eða að Skötubót.
Við fengum æðislegt veður á laugardeginum og aðstæður til útreiða að öllu leiti frábærar. Háfetamenn tóku mjög vel á móti hópnum, útveguðu okkur girðingu og aðstöðu fyrir hesta og reiðtygi og fengum við að gista í félagsheimili þeirra.
Restinni af deginum var eytt í sundi, grillað og farið í leiki.
Við vorum ekki eins heppin með veður á sunnudeginum, úrhellisrigning og kalt var þegar það var lagt í hann og því ákveðið að stytta ferðina um helming.
Fjaran var riðin til baka og voru hestar og krakkar sóttir í gömlu sandnámuna, í staðinn fyrir á Bjarnastaði í Ölfusi þar sem áætlað hafði verið að enda ferðina. Við keyrðum þó á Bjarnastaði þar sem Cora Jovanna Claas frá hestamannafélaginu Ljúf í Hveragerði tók á móti okkur með kaffi og kökum.
Ferðin gekk í alla staði frábærlega og þökkum við góðar móttökur bæði hjá Háfetafólki sem og hjá Coru og hennar fólki. Verðum við að segja að þær reiðleiðir sem voru farnar voru frábærar og horfðum við Sleipnismenn með öfund á alla útreiðamöguleikana og til þeirra frábæru reiðstíga sem þessi nágrannafélög okkar fá að njóta.
f.h. Æskulýðsnefndar Sleipnis
Guðrún Linda Björgvinsdóttir.
{gallery}AE-ferd2020{/gallery}