Hesthúshornið

Nú færist fjör í Sleipnisliðið vorblær í loftinu og reiðtúrarnir lengjast og kvöldið er bjart. Mikið um að vera í reiðhöllinni í námskeiðum og fróðleik og smátt og smátt þokast allt í rétta átt. Veturinn gera menn alltaf upp í öllum félögum með skemmtikvöldum. Nú gerðist það í Sleipni að stelpurnar höfðu ákveðið að halda kvennakvöld föstudaginn 15. apríl nk. þeim þykir gott að losna við karlpeninginn í eitt og eitt skipti og vera frjálsar. Í stað þess að leggjast í fýlu ákváðu karlarnir að hefna sín á konunum og hafa nú ákveðið að hafa kallakvöld, föstudaginn 6. maí í Þingborg.
Sá gamli lætur ekki deigan síga í 25 ár hefur sól Orra frá Þúfu risið hærra og hærra. Í dag er hann kóngurinn með yfirburði yfir alla stóðhesta landsins. Um sextíu hryssur allar alræmdar fegurðardrottningar lögðu leið sína á fund hans á síðasta ári já á ástarfund og höfðinginn skilaði sínu. Hann eignast sextíu afkvæmi í vor og fyrir á hann eitt þúsund syni og dætur. Indriði Ólafsson bóndi í Þúfu í Rangárþingi eystra nú í Ystakoti var ræktandi hestsins. Frægð Indriða og Orra óx hröðum skrefum Indriði hefur um árabil verið einn famsæknasti hrossabóndi landsins enda er hann hér uppi í horninu með Orra.
Nú er hann Þorkell Bjarnason hér í horninu. Enginn einn maður hefur haft jafn mikil og farsæl áhrif á ræktunarstefnu íslenska hestsins. Sem barn að aldri nam hann hestamennsku og reiðlistina við fótskör föður síns, Bjarna skólastjóra. Fyrsti folinn sem var sumarkaupið hans frá systkinunum í Fjalli á Skeiðum hafði líka sín áhrif. Hann var 12 ára þegar hann reið frá Laugarvatni í Fjall að sækja folann, gerði hann leiðitamann og hélt svo heim en Ingólfur á Iðu ferjaði strákinn og hestana yfir ólgandi Hvítá.
Engum blandast hugur um það lengur að reiðhöll Sleipnis er þegar farin að hafa mikil áhrif á hestamennskuna á Selfossi og í Flóanum. Þessi mikla aðstaða og byltingarkennda í öllu faglegu starfi í kennslu og námskeiðum og hátíðahaldi er auðvitað ekki ein um þetta. Það var öllum ljóst t.d. í Þorlákshöfn að Guðmundarhöllin var bylting þar og að hin stóra Ölfushöll á Ingólfshvoli gjörbreytti landslaginu í sýningum og stóratburðum hestamennskunnar á Suðurlandi. Rangárhallirnar á Hellu og Hvolsvelli svo og Flúðahöllin í uppsveitunum eru að gera það mjög gott. Hestamenn finna að landið er byrjað að rísa á ný eftir hrossapestina og enginn safnar jafn mörgu fólki saman og hesturinn á sýningar og stóra viðburði sem flestir fara fram í reiðhöllum yfir veturinn. Að vísu eru kóramót, viðburðir útmánaðanna í kirkjum og félagsheimilum landsins. Það er hesturinn og söngurinn sem helst reisir okkur upp frá umræðu um kreppu og vandræði hrunsins. Aldamótaskáldin sömdu ljóð og söngva í upphafi síðustu aldar sem dreif áfram bjartsýni og manndóm fólksins í landinu. Sá kraftur skilaði okkur í efstu hæðir hvað lífsgæði varðar í heiminum. „Íslendingar eiga önnur og meiri ónýtt tækifæri en nokkur þjóð í allri Evrópu,“ sagði útlendur spekingur. Nú er aðallega rætt um að gefa öðrum þessi tækifæri með okkur og að við tökum annarra þjóða vandræði á okkar herðar. Ég er samvinnumaður og geri mér grein fyrir mikilvægi þess að eiga gott samstarf við fólk í öðrum löndum, en okkar auðlindir og okkar sérstaða verður að vera eign barnanna okkar sem ætla að halda áfram að búa í okkar yndislega landi. Ísland er matvælaframleiðsluland, verð hækkar, eftirspurn vex eftir góðum mat, fiski, kjöti, skyri og smjörinu góða og hesturinn vinnur sín lönd á ný. Bjartsýni og trú er andlegt afl sem gefur einstaklingum og þjóðum sigra. Þegar Góa gamla hristir pils sín og hellir yfir okkur éljum fara margir að kvarta en veturinn hefur verið mildur á Íslandi. Stundum hugsa ég til fjarlægrar vinaþjóðar sem ég heimsótti og þar á ég hest sem þeir gáfu mér og heitir hann Skjóni. Fræðimenn telja íslenska hestinn upprunninn í Móngólíu og þaðan hafi hann borist til Evrópu sem harðsækinn og duglegur reiðhestur fótfrár og engum hesti líkur í stríði. Ekki fór það fram hjá mér að skildleiki er með þessum hrossakynjum. Séð hef ég ennfremur styttur og myndir í París sem eru eins og af okkar hesti.
Eitt sinn kom ég í Rússnesku Dúmuna með þingnefnd þar tók ég að lýsa íslenska hestinum þá stöðvaði mig gamall Landbúnaðarráðherra frá Aserbaidsjan við Kaspíahaf og sagði „hættu nú þetta er hesturinn okkar.“ Landbúnaðarháskóli Íslands undir stjórn doktors Ágústs Sigurðssonar hefur verið með samstarfsverkefni með hrossabóndanum og vísindamanninum Kára Stefánssyni í Íslenskri Erfðagreiningu en Gunnfríður Hreiðarsdóttir
doktorsnemi er að kafa ofaní þennan skyldleika, og verður fróðlegt að fylgjast með hennar niðurstöðu í málinu. Myndin er af mongólískum gæðingi.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is
Reiðhallirnar styrkja hestamennskuna sem valgrein í framhaldsskólakerfinu. Í dag hafa skólarnir heilmikið svigrúm fyrir hestamennsku sem fullgilda námsgrein í skólakerfinu. Lögum hefur verið breytt sem ganga útá nýsköpun í námsframboði. Fjölbrautaskóli Suðurlands rekur námsbraut í hestamennsku en skólinn gæti orðið mikil móðurstöð í hestamennskunni ef skólayfirvöld í landinu og heimamenn stigu þau skref til fulls. Öflugir hestabúgarðar og hestamenn eru í héraðinu reiðhallir í eigu einstaklinga og hestamannafélaga skipa fallegan krans um skólasvæðið. Best búni Landsmótsstaðurinn er á Hellu sem gæti orðið nokkurskonar þjóðarleikvangur íslenska hestsins ef eigendur Gaddstaðaflata, hestamenn og sveitarfélög sameinuðu krafta sína eins og nú er rætt um í alvöru. Grunnskólarnir á Suðurlandi yrðu virkjaðir sem valkostur strax í barnæsku alveg eins og tónlistarnám eða val í íþróttum. Það er líka löngu kunn saga að ekkert er heppilegra til að vekja börn og unglinga sem jafnvel funkera ekki um sinn í hefðbundnu námi en valgreinar í verklegu fagi. Hestamennska hefur gert mörg börn og unglinga sem voru afskrifuð í skóla að fagfólki og afreksfólki sem fundu sig í gegnum samskipti við hestinn eða lifandi dýr. Knapamerkjakerfið gerir hestamennskuna að sérlega aðgengilegri kennslugrein fyrir framhaldsskólana. Knapamerkjakerfið styðst við yfirgripsmikið og kerfisbundið námsefni, stöðluð próf, ítarlegar leiðbeiningar fyrir nemendur og kennara um skipulag og framkvæmd kennslu. Gagnvirk upplýsingaog skráningakerfi með gagnagrunni um niðurstöður kennslu og prófa. Hvar stendur þá hnífurinn í kúnni eins og karlinn sagði? Jú lögin og skólakerfið verður að skilgreina hestamennskuna sem blöndu af íþróttalistgrein eða fagurfræði sem jafnframt gefur einstaka tengingu við náttúru og menningu landsins. Rekstrarkosnaður við námið er meiri en í mörgum öðrum greinum þessvegna verða yfirvöld að gera námið fjárhagslega álitlegt fyrir skólana og viðurkenna sérstöðu þess. Í verklegri kennslu framhaldsskólanna er miðað við hópstærð tólf nemenda. Sérstaða hestamennskunnar liggur í að kennarinn er að vinna með tuttugu og fjóra á gólfinu í stað tólf séu hestar og nemendur taldir sem er hið rétta. Ísland er matvælaframleiðsluland í fremstu röð á því lifum við öðru fremur hér, hvað sem þeir bulla sem alltaf eru að gera lítið úr sjávarútvegi og landbúnaði, bónda og sjómanni. Við eigum hinsvegar ýmsa aðra möguleika í t.d. hátækni og vísindum og ferðaþjónustu. Hesturinn skorar hátt í hestatengdri ferðaþjónustu og útflutningi á verðmætum. Framhald svona kennslu í grunn- og framhaldsskólakerfinu er svo nám við Landbúnaðarháskólana á Hólum og Hvanneyri í reiðmennsku og reiðkennslu, og æðra námi. Fólk með réttindi og nám að baki á þessu sviði á mikla atvinnumöguleika að námi loknu við að temja, þjálfa, keppa og útbreiða boðskapinn um íslenska hestinn. Þarna á Suðurland sérstöðu og gullið tækifæri.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is
Í ljósi þess að reiðhöll Sleipnis er komin í notkun bæði í námsskeiðahaldi og ýmiskonar uppákomum og
reiðmennsku, er eðlilegt að menn spyrji eftir verklokum og vígsluhátíð með söng og gleði. Frá því er rétt að skýra að upp kom vandamál með þakleka sem tefur heildarverkið og verið er að rannsaka orsakir lekans. Við bindum vonir við að Sleipnismenn og seljendur og hönnuðir reiðhallarinnar BM Vallármenn komist sem fyrst að sameiginlegri niðurstöðu. Hvað er hvurs og hvurs er hvað. Höllin verður ekki einangruð og ekki gengið frá
ýmsum öðrum atriðum fyrr en þetta er komið á hreint og í lag. Flóamenn eru heiðarlegir í viðskiptum og hafa að leiðarljósi í lífi sínu „rétt er rétt.“ Þeir eru engir mútumenn eins og Marðarkenningin hélt fram á dögunum. Engum ummælum hef ég reiðst jafn mikið og þessum um langa hríð, enda ekki skaplaus enn. Forfeður okkar Flóamanna hefðu illa unað sínum hlut. Þorgils Örrabeinsstjúpur í Traðarholti mikil hetja og fylginn sér sá sem hestinn Illing drap og síðar þrælinn Bjálfa hefði ekki tekið svona stóryrðum þegjandi. Nú er öldin önnur menn komast upp með bjálfaskap og spara ekki gífuryrðin. Þrátt fyrir einhverjar tafir um verklok hallarinnar halda Sleipnismenn ótrauðir áfram með að undirbúa stórverkefni sumarsins sýningar og heimamót Landsmót á Vindheimamelum og HM í Austurríki. Reiðhallirnar hafa sannað gildi sitt ein slík var byggð á Flúðum og hestamannafélögin Smári og Logi eiga hana skuldlausa. Hverja einustu helgi fram til vors eru hátíðir sýningar og uppákomur í reiðhöllinni þeirra. Smáramenn og Logamenn hestamannafélögin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
og Hrunamannahreppi og svo Biskupstungum sameinuðu styrk Landbúnaðarráðuneytisins og með tilkomu
Hvítárbrúarinnar byggðu þeir eina reiðhöll staðsetta á Flúðum. Félagsmenn lögðu fram ómælda sjálfboðavinnu
við bygginguna. Já brýr hafa jákvæð áhrif og Hvítárbrúin nýja sem tók ein tuttugu ár að koma í framkvæmd sannar gildi sitt og mun styrkja Árnesþing ekki síst upp til fjallanna. Uppsveitamenn eru frægir hestamenn og gæðingar þeirra eru í fremstu röð „ég veit hestinn minn traustan og mig heimvonin gleður,“ sagði Eiríkur á Hæli. Enn man ég frá æsku minnar dögum Blæ Hermanns í Langholtskoti og Neista Jóns í Skollagróf eða
Gulltopp Jóns í Eystra- Geldingaholti og Reyni Þorsteins á Húsatóftum, þvílíkir hestar og hestamenn í minningunni. Þeir sem koma í reiðhöllina á Flúðum sjá að uppsveitamenn rækta enn afburða hross og eru snjallir keppnismenn. Svo eiga þeir sér öflugan sendiherra hann Sigurð Sigmundsson sem rekur sitt eigið sendiráð hann skýrir frá afrekunum í máli og myndum. Siggi í Syðra hefur unnið hestamennskunni og héraði
okkar ómælt gagn með myndavélinni sinni. Hann hefur skráð sögu í gegnum linsuna í meira en hálfa öld.
Myndirnar hans varðveita ekki bara minningu um glæsta gæðinga heldur fólk, andlit og atburði sem yljar manni um hjartarætur. Nú sendi Siggi mér myndina af Blæ einum fræknasta hesti landsins á sinni tíð og það er eigandinn Hermann heitinn í Langholtskoti sem situr hann.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is
Það var skemmtileg stund í Halakoti á sunnudaginn var á folaldasýningu Hrossaræktarfélags Hraungerðishrepps. Yfirfjörutíu folöld voru sýnd á rúmum tveimur tímum, eigendur þeirra voru stoltir leikurinnvar jafn og spennandi. Á sýninguna mættu yfir eitt hundrað manns og aldursbilið ámilli þess elsta og yngsta voru níutíu ár.
Stefán Guðmundsson fyrrum oddviti Hraungerðishrepps og bóndi í Túni lét sig ekki vanta á þessa hátíð fremur en önnur mannamót í sinni veit. Hann er hér uppi í horninu með glampa í augum að taka út gæðingsefni framtíðarinnar. Stefán ríður enn út með Guðjóni frænda sínum í Uppsölum og þegar maður sér þá félaga á reið fer maður að efast um að Flóamenn séu jafn hógværir og af er látið. Það er gustur og gríðarþokki sem fylgir þessum kempum þegar þeir eru komnir í hnakkinn. Hann er talinn hestglöggur hann Steindór Guðmundsson í Hólum en hann var dómari sýningarinnar, ættaður frá Haugi af hesta- og glímumönnum kominn, heyrði engan efast um niðurstöðu hans. Það var Jónas Hreggviðsson semsigraði með glæsifolaldi undan Markúsi frá Langholtsparti. Ennfremur urðu þeir Oddgeirshólabændur sigursælir áttu folöld í öðru og þriðja sæti undan Æsi frá Oddgeirshólum og Kjarna frá Þjóðólfshaga. Vinsældarkosningin féll íhlut Þokku Lokadóttur í eigu Ágústs Guðjónssonar. Þarna kom fram mikið úrval af óvenju fallegum folöldum. Saga hrossaræktar í Hraungerðishreppi hinum forna á sér langa sögu og merka. Búfjárrækt almennt hefur reyndar staðið óvenju traustum fótum í sveitinni í áratugi. Gunnar Bjarnason minn gamli kennari og Hrossaræktarráðunautur fjallaði í bók sinni Ættbók og Saga um hrossaræktina í Hraungerðishreppnum. Hrossaræktarfélagið var stofnað 1913 þannig að snemma beygðist krókurinn að ræktun og árangri í þessari sveit. Gunnar nefnir tvo sterka hesta til sögunnar þá Berghyls-Brún og Kára frá Grímstungu sá fyrri ríkti frá 1927 til 1937 en síðari frá 1937 til 1948. Hann gefur þeim þessa umsögn: Með Berghyls-Brún fer stofninn í Hraungerðishreppi að fá mótaðan svip en Brúnn var með bestu stóðhestum landsins. Gaf meðalstór jafnvaxin prúð og geðgóð en þó skapmikil og viljagóð hross. Liðug í hreyfingum og fjölbreitt í gangi. Síðar kemur Kári andstaða Brúns glæsilegur klárhestur. Hann spillti að vísu skapgerð hrossanna og reiðhestakostum þeirra. En á meðan afkvæmi hans settu sterkastan svip sinn á hross sveitarinnar voru þar einhver glæsilegustu hross landsins háreist og hálslöng og „Arabísk í sköpulagi.“ Svo mörg voru þau orð en þetta lýsir vel fast að hundrað ára sögu í minni gömlu sveit. Niðjar gömlu bændanna eru enn að og nýjar ættir komnar á einstaka bæ. Hrossabændur og góðir reiðmenn konur og karlar setja sterkan svip á þessa sveit. Verkefnið er enn það sama og frumherjanna að rækta falleg og hæfileika rík hross. Enn ríður Brúnn eða Kári í garð í nýjum tískuhesti sem breytir stofninum sterka.
Guðni Ágústsson
Þá er vertíðin hjá Hestamönnum komin á fulla ferð, hver atburðurinn mun rekja annan. Sumarið með Landsmót á Vindheimamelum og stemningu hinna lífsglöðu Skagfirðinga, þar munu menn upplifa það sem hinn ástsæli leikari og hestamaður Flosi heitinn Ólafsson söng svo vel þegar ég var unglingur. „Það er svo geggjað að geta hneggjað.“
Landsmótin eru uppskeruhátíðir og mæla árangur í kynbótum hrossabóndans og á hvaða leið hestamennskan er á hverjum tíma, þar greina menn framfarir í ræktuninni og reiðlistinni. Þar koma saman þeir sem bera hitann og þungann í kringum Íslandshestinn svo og áhugamenn um hestinn og lífsgleðina. Útlendingar fjölmenna á Landsmótin þúsundum saman.
Enginn einn atburður á Íslandi dregur jafn marga áhugamenn til Íslands og Landsmótin og hesturinn. Ennfremur vegna hrossapestarinnar illræmdu og frestun á Landsmóti af þeim sökum í fyrra ber Heimsmeistaramót einnig uppá sumarið í sumar. Heimsmeistaramótin eru heimsviðburður og óviðjafnanlegir leikar og því trúir enginn Íslendingur nema að upplifa þá stemningu sem hesturinn okkar skapar í tugum þjóðlanda. Þegar ég sótti slík mót sem Landbúnaðarráðherra fannst mér að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson setti bæði Landsmótin og ekki síður Heimsmeistaramótin á æðra plan. Forsetinn og forsetafrúin voru í hópreiðinni við setningu, þau drógu að mótunum bæði góða gesti og mikla athygli. Ég fann að ávörp forsetans vöktu jafnan athygli og umræðu í erlendum fjölmiðlum. Útlendingum fannst sérstakt að sjá þjóðhöfðingann á þessum samkomum hvort hann hét Ólafur Ragnar Grímsson eða Vigdís Finnbogadóttir. Því miður bar hestamönnum ekki gæfa til að halda í þessa hefð hvað sem olli því. Hinsvegar eiga forystumenn mótanna beggja að endurnýja gömul kynni og fá forsetann og forsetafrúna á ný til liðs við sig. Þau halda á lykli sem opnar umræðu og dyr fyrir hestamenn og hestinn okkar og Ísland í leiðinni. Stærsti atburður síðustu viku var upphaf Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum, Ölfushöllin var þrungin spennu og hvert sæti setið. Ofurknapinn Sigurður Sigurðarson í Þjóðólfshaga sigraði með glæsibrag í fjórgangi á Loka frá Selfossi með einkunina 7,57. Loki er í eigu Ármanns Sverrissonar sem er Sleipnisfélagi og vaxandi hestamaður. Þegar ég hitti svo Sverri guðföður Loka og föður eigandans og sagði við hann „ja þetta var ekki há einkunn hjá Loka.“ Þá sigu augabrúnir Sverris að hætti okkar Brúnastaðamanna og röddin varð eins og ránarfall og hann sagði. ,,Ja það er auðheyrt bróðir að þú ert ruglaður í þessu og veist lítið um svona íþróttakeppni. Þessi einkunn Sigurðar og Loka er líklega hæsta einkunn sem hefur verið gefin í svona keppni fram að þessu, að fá 8,00 telst nánast fullt hús stiga.- Ég varð að játa mig sigraðan einu sinni enn. Sigurður sjálfur sagði mér að það hefði verið samspil hans og Loka sem hefði skilað þeim á toppinn en þeir höfðu yfirburða forystu. Um Stóðhestinn og gæðinginn Loka frá Selfossi sagði Sigurður svo. ,,Loki er yfirburðar snillingur mjúkur og fjaðurmagnaður.“ Þeir eru flottir á myndinni hér upp í horninu.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.i
Þá hafa rafvirkjarnir okkar tengt reiðhöllina Búrfellsvirkjun og allt logar af dýrð. Sleipnismenn eru komnir á gæðingum sínum inn í reiðhöllina og máta reiðvöllinn við sjálfa sig og hestinn. Reiðhöllin er opin og frjáls Sleipnismönnum. Í hönd fara dagar án gjaldtöku, dagar þar sem hinn almenni hestamaður í Sleipni fær að prufa að þjálfa hestinn í reiðhöll. Síðan tekur við tímabil skipulagningar og hóflegrar gjaldtöku sem er nauðsynlegt fyrirkomulag til að reka reiðhöllina. Það verður síðan reiðkennslan og námskeiðin ásamt stór hátíðum sem mestu munu skila til félagsstarfsins og félagans. Því er ekkert jafn mikilvægt og hann Einar Öder Magnússon bauð Sleipnismönnum að kenna hinum almenna hestamanni að nýta höllina.
Aðalfundur Hestamannafélagsins Sleipnis var haldinn í síðustu viku, elstu menn muna ekki jafn fjölmennan fund. Hún er hér uppí horninu hún Þórdís Ólöf Viðarsdóttir hún nýtur einróma stuðnings sem formaður í öflugri stjórn félagsins. Það ríkti mikil samstaða á fundinum og eftirvænting, reiðhöllin og reiðvegirnir nýju skapa samstöðu og bjartari framtíð.
Daginn er tekið að lengja eitt hænufet á dag í þrjár vikur, gerir það að verkum að við sjáum og finnum mun bæði á morgnana svo ekki sé talað um síðdegis. Ísland á ærinn auð og smátt og smátt mun landið og almættið endurreisa okkur og færa þjóðinni glæst tækifæri. Sleipnismenn hafa horft beint framá veginn, síðasta ár var ár nýrra hugsjóna að búa félagið þannig til bardaga að það væri í fremstu röð. Allt sem hestamaðurinn þarf að hafa aðgang að er nú að komast í höfn hér á Selfossi.
Höskuldur Eyjólfsson í Saurbæ í Villingaholtshreppi og síðar á Hofsstöðum í Borgarfirði er hér uppí horninu, á Goða sínum. Kempulegur erknapinn og fangreistur hesturinn. Höskuldur var Sleipnisfélagi og frægur maður hér um slóðir. Eiðfaxamenn birtu viðtal í síðasta blaði við Gísla son hans sem flutti ellefu ára með fjölskyldunni í Borgarfjörðinn 1938, að Hofsstöðum. Ennfremur segir frá því í blaðinu að nú ætli þeir að heiðra minningu Höskuldar með hestagerði í Reykholti og hafi fengið til liðs við sig Pál á Húsafelli sem muni klappa hetjuna í stein.
Reiðhöll Sleipnismanna færist nær því að verða reiðfær, sé þetta sagt á máli hestamanna um góðan fola. Nú er allur kraftur og vinna lögð í skeiðvöllinn. Skítugur mulningur kemur ofaná grófu grúsina síðan harpaður og þveginn skeljasandur. Valdimar Friðriksson sjálfboðaliðinn vaski hugar að rekkverkinu og fótafjölinni, svo að verkamennirnir vösku geti á næstu vikum lokað hringnum. Þessi kraftur segir mér að námskeið geti hafist strax undir nýárs blessaðri sól. Nú vendi ég kvæði mínu í kross einn öflugasti félagsmálamaður hestamanna hélt uppá sextugsafmælið sitt á sunnudaginn var. Kristinn Guðnason bóndi í Árbæjarhjáleigu er landskunnur maður vinsæll og vel látinn. Hann hefur í mörg ár verið formaður Hrossabænda og stýrir sínum her til sóknar. Það var gott að eiga Kristin að þegar ég var Landbúnaðarráðherra, einu sinni sinnaðist okkur þó, ég skipaði veislustjórann í afmælinu hann Ágúst Sigurðsson Hrossaræktarráðunaut frá Kirkjubæ rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá sagði Kristinn:
Jólafastan er gengin í garð, þá lýsa Íslendingar umhverfi sitt upp með jólaljósum. Sólin kemur blóðrauð upp í suðaustriundir hádegi, það er dimmt á norðurhveli jarðar á þessum tíma. Evrópa hefur síðustu daga verið undirlögð af fimbulkulda og harðindum, meðan fáum við einn mildan vetur enn, getum horft á bjartar stjörnur og norðurljós braga um breiðan himin. Frostið að vísu bítur í kinn á köldum vetrarmorgni og ultarkrunkið í krumma sem sefur í kaldri klettagjá í Ingólfsfjalli á nóttunni er sárt. Frostið hefur tvær hliðar það drepur líka ýmis kvikindi í náttúrunni sem annars myndu angra okkur á sumardögunum. Færðin eins og á sumardegi flesta daga og hlýtt í húsakynnum okkar.
Af mikilli tilviljun skrifaði ég síðasta pistil um það forboðna og hættulega. Að við öll ekki bara hestamenn, áttum okkur á lífshættunni af því að smygla lifandi dýri til landsins, skítugum fötum eða „gómsætu,“ kjöti. Þetta allt getur valdið faraldri sem drepur menn og skepnur. Hingað gæti borist hundaæði með smyglhundi, hingað gæti borist kúariða með hráu kjöti. Svartidauði sem felldi þriðjung þjóðarinnar kom með skítugum fötum um Eyrarbakka forðum daga. Unga hestamanninn sem henti það slys, gáleysi á dögunum að koma með reiðtygi og skítug föt, hann hefur nú hneigt höfuð sitt og beðist afsökunar. Ég virði auðmýkt hins unga manns hann hefur lært lexíu sína og upplifað með fjölskyldu sinni vítiskvalir og samviskubit, hann mun aldrei aftur brjóta þessa ströngu reglu.
Árið í ár hefur verið viðburðaríkt bæði meðal hestamanna og þjóðarinnar allrar....Hestapestin raskaði ferðalögum hestamanna framan af sumri og varð til þess að Landsmót Hestamanna var slegið af. Hinsvegar hafa vonandi allir Íslendingar áttað sig á þeirri staðreynd ekki síst þeir sem eiga dýr að okkur ber að fara mjög varlega ef við komumst í snertingu við búfénað eða komum í fjós eða hestabúgarð erlendis.
Sviðamessa allra tíma í Þingborg.
Nú eru Sleipnismenn að faraá fulla ferð að ljúka byggingu reiðhallarinnar við Brávelli horft er til verkloka og vígslu á Þorra þegar klárar eru komnir á skaflajárn og Karlakór Selfoss hefur þanið barka sína og vilja að allur heimur heyri hvað þeir syngja ljómandi vel. Sleipnismenn hafa það eins og í fyrra þeir starta sjálfboðastarfi sínu með stórbrotinni bjórhátíð og sviðamessu í Þingborg föstudagskvöldið 12. nóvember n.k.
Því er mikilvægt að allir ballfærir menn konur og karlar á aldrinum sextán til heldri borgara taki fram dansskóna og láti vini sína vita af hátíðinni. Nú éta menn svið á hátíðum sínum og reyndar íslenska lambið upp til agna. Öðruvísi brá 2007 í vitleysunni þegar allt var orðið svo alþjóðlegt og fínt að bambarnir krómhirtirnir og krókódílakjötið frá Afríku flæddi um öll borð. Nú vitum við að lambið ,smjörið okkar og skyrið eru gullin okkar sem við og heimurinn hrífst að. Sleipnismenn vilja gjarnan sjá vini sína úr öðrum sóknum þeir vilja sjá árnesinga rangæinga og skaftfellinga reykvíkinga og allt skemmtilegt fólk á sviðamessunni. Ég var á einni slíkri í Búðardal á dögunum með kvæðamönnum og Geirmundi sjálfum þar var hálf þjóðin fólk allsstaðar að hleigið, sungið og dansað.
Sviðamessan í Þingborg verður hlaðin af skemmtileg-heitum við reyndum að fá Gísla Einarsson sem alla hrífur með þjóðlegum húmor og Mýramannaútliti sínu, hann sagðist koma næsta ár. Þá fórum við að hugsa heim allt fullt að góðum veislustjórum í kippum vildum fara vel með gamla gæðinginn frá því í fyrra hann Þór Vigfússon völdur Hermann Árnason agnaðan húmorista og hestamann sem hefur sundriðið alla ósa stórfljótanna austur í Hornafjörð. Hann Gísli okkar Stefánsson stórsöngvari kemur og syngur en hann er úr sönghreiðrinu hennar Ellu Arnolds magnað kannski kemur stóra eða litla systir hans með honum báðar orðnar frægar.
Hljómsveitin Dirrindí spilar fyrir dansi, og Árni Johnsen kemur með arnarklóna og gítarinn það verður brekkusöngur þar stenst honum enginn snúning. Margt fleira verður á dagskrá Þetta er sem sé ódýr og góð skemmtun sem fólkið í héraðinu okkar er boðið vel komið á. Kjörin hátíð fyrir fyrirtækin að bjóða sínu fólki á þjóðlega skemmtun. Við spörum eldamennsku heima og borðum úti í góðra vina hópi þetta kvöld. Arðurinn af samkomunni fer beint í að steypa undir áhorfendasvæðið í reiðhöllinni. Þórdís formaður boðar til fundar í kvöld í Hliðskjálf og ræðir við félaga sína í Sleipni um gólfið í höllinni efni og aðferð við að skapa sem bestan skeiðvöll.
Ballið er rétt að byrja Sleipnismenn.
Guðni Ágústsson.
gudni.ag@simnet.is
Nú er búið að fylla sökkulskurðina af grús og þjappa hana.
Þannig að það er ljóst að Reiðhöllin verður á bjargi byggð.
Þeir Vörðufellsmenn áttu lægsta tilboð í smíði sökkulveggjanna og hefja þeir framkvæmdir næstu daga.
Vörðufellsmenn eru eðlilega Skeiðamenn, þannig að þetta verk er í öruggum höndum.
Reiðhallir hestamannafélaganna rísa um allt land. Hörður í Mosfellsbæ vígði glæsilega höll um síðustu helgi. Hinn peningalegi sjóður upp á 330 milljónir sem fór ekki með í sölu lánasjóðs Landbúnaðarins til Landsbankans er að breyta allri aðstöðu hestamanna í landinu.
Áður en þetta mikla átak hófst milli hestamannafélaganna og Ríkisins voru nokkrar reiðhallir byggðar og höfðu sannað gildi sitt.
Ölfushöllin á Ingólfshvoli er ein þeirra. Hún er stór og gegnir mikilvægu félagslegu hlutverki um alla framtíð. Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn var önnur gefin af fjölskyldu Einars Sigurðssonar, útgerðamanns til minningar um son og bróðir, Guðmund Einarsson sem fórst í átakanlegu bílslysi á æskualdri. Reiðhöll Guðmundar hefur sannað gildi sitt. Í sex ár hefur reiðhöllin breytt öllu starfi hestamanna við hið úfna haf. Börn, unglingar og konur setja mikinn svip á starfsemi Háfeta í Þorlákshöfn og gróska í félagsstarfi er meiri en gerist.
Byltingin sem fylgir reiðhöllunum er í kennslu reiðmennsku og öryggi í barna- og unglingastarfinu.
Á svæði þessara tveggja reiðhalla eru félögin Háfeti og Ljúfur í Hveragerði og Ölfusi.
Það voru ekki síst Ljúfsmenn með Helgu Rögnu Pálsdóttur í Kjarri í farabroddi sem tókst að ná einstakri samstöðu um reiðvegagerð fjarri hraðbrautinni.
Í Ölfusi eru reiðvegirnir til fyrirmyndar.
Með elju og samtakamætti tókst einstakt samstarf um reiðleiðir sem féllu vel inní aðalskipulag sveitarfélaganna.
Þessi vinna var unnin í samstarfi við Vegagerðina og sveitastjórnir Ölfuss og Hveragerðis í sátt við bændur og landeigendur.
Afrek Hvergerðinga og Ölfusinga í reiðvegagerð er leiðarvísir til Sleipnismanna og annarra hestamannafélaga um fagleg vinnubrögð. Reiðvegir fjarri hraðbrautum í sátt við bændur með góðum hliðum er lykill að öflugra starfi hestamanna. Það á að fylgja lífinu að læra af þeim sem fremstir fara og mestum árangri ná.
Guðni Ágústsson
Netfang: gudni.ag@simnet.is
Nú er hún Guðríður Valgeirsdóttir hestakona á Arnarstöðum hér uppi í horninu,á Hjörvari sínum stórættuðum og flottum.
Hún er nú fremst meðal jafningja í Sleipni sem formaður afmælisnefndar. Hún undirbýr með afmælisnefnd jólahlaðborð og afmælishátíð í Þingborg laugardaginn 28. nóv. n.k.
Það eru liðin áttatíu ár frá því að Sleipnir var stofnaður að Skeggjastöðum. Hátíðin verður í félagsheimilinu Þingborg. Hvet ég fólk til að panta miða sem fyrst í síma 4821030 eða 8940485 eða á netf:gaujav( )simnet.is. þetta verður jólahlaðborðið í ár ódýrt með mat af háborði landbúnaðarins okkar, með söng og sögum,“kúltiverað,“ kvöld með kertaljósum, þar sem fólk getur talað saman. Hún syngur Sleipniskonan hún Hlín Pétursdóttir við undirleik Esterar Ólafsdóttur. Félagsheimilið Þingborg liggur best við sem samkomustaður í héraðinu öllu það er miðsvæðis. Þetta er húsið sem Stefán í Túni byggði með sveitungum sínum og rís einsog kínverskt hof uppaf sléttunni miklu.
Í síðasta pistli sagði ég frá því að Landsbankinn og Bókakaffi Bjarna myndu verða með sölu á hlutdeildarskírteinunum en haft verður sérstakt samband við félagsmenn og velunnara Sleipnis. Nú hafa tvö fyrirtæki bæst við Hestavöruverslunin Baldvin og Þorvaldur. ÉG hitti þau Guðmund og Rögnu einn morguninn þetta fyrirtæki hefur starfað í landinu á aðra öld stofnað 1905 flutti á Selfoss 1981 og þau tóku við versluninni 1997 og þjóna sífellt stærri markaði. Þennan morgun voru hestamenn í búðinni,mættir í rauðabítið. Ég lærði nýmæli þegar Daníel í Pulu spurði Ísleif í Kálfholti hvort hann væri eitthvað að „hestast.“
Svo er það Vesturbúðin á Eyrarbakka þeir Agnar og Finnur vilja hjálpa Sleipni. Þeir hafa tekið upp gamla nafnið af gömlu stórversluninni sem Egill Thor lét rífa og notaði efnið til að byggja upp í Þorlákshöfn. Kaffið er gott og menn hlæja saman í Vesturbúðinni og góðar eru gellurnar sem ég var að sporðrenna frá þeim félögum. Eyrarbakki var nánast höfuðstaður Íslands í eina tíð,það munaði Sigga mjóa einsog krakkarnir segja . Hann Ágúst litli í Hraunprýði var ekki gamall þegar hann sat í Vesturbúðinni fluglæs og las fyrir gesti og gangandi 5 eða 6 ára,fékk vínarbrauð og skonroksköku að launum og hrós.
Já við Brúnastaðamenn eigum ættir okkar að rekja niðrá Eyrarbakka. Þar var gaman að vera hestastrákur sagði Ágúst á Brúnastöðum síðar. Enda annálaðir hestamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri,svo eru margir hestamenn að byggja í Tjarnarbyggðinni í ríki Jörundar.
„VIÐ BYGGJUM REIÐHÖLL SAMAN.“
Guðni Ágústsson netfang:gudni.ag( )simnet.is
Á fjölmennum félagsfundi í Hestmannafélaginu Sleipni nú á dögunum var tekin ákvörðun eftir útboð og samkeppni að byggja reiðhöll úr límtré frá BM Vallá 50m x 25m. Byggingin mun rísa að Brávöllum á Selfossi. Mikil samstaða kom fram um málið á fundinum og urðu miklar umræður um framtíðina og hvernig að byggingunni verður staðið. Félagssvæði Sleipnis nær yfir tvö sveitarfélög Árborg og Flóahrepp.Félagsmenn eru 400 talsins. Reiðhöllin er félagsmönnunum og félaginu mjög mikilvæg til að dragast ekki afturúr öðrum hestamannafélögum. Fundurinn samþykkti að gefa út sérstök hlutdeildarskírteini þar sem félagsmönnum svo og velunnurum ásamt fyrirtækjum væri gefinn kostur á að eignast hlut í reiðhöllinni á móti 51% hlut Sleipnis. Gefnir verði út 4000 hlutir og verði 1 hlutur verðlagður á 20 þúsund krónur. Þannig geti sem flestir eftir efnum og ástæðum verið meðeigendur að reiðhöllinni og lagt sitt að mörkum. Á fundinum reið formaður Sleipnis Guðmundur Lárusson á vaðið og keypti 5 hluti á 100 þúsund krónur Kaupendur hlutdeildarskírteinanna geta samið um ákveðna mánaðargreiðslu eða staðgreitt hlutina. Það kom fram að félagsmenn binda vonir við mikið framlag í sjálfboðavinnu við bygginguna. Félagsmenn munu lyfta grettistaki og reisa höllina fyrir jól, það er góð jólagjöf til framtíðarinnar. Ólafur Sigfússon frá Ketilstöðum hefur boðist til að grafa fyrir sökklunum og gefur þá vinnu. Vilhelm Skúlason frá Mána í Keflavík var gestur fundarins áður Selfyssingur sagði frá reiðhöll Mána sem stendur fullbyggð og skuldlaus félagsmönnum sínum til þjónustu. Vilhelm keypti síðan einn hlut í væntanlegri reiðhöll Sleipnis. Hann sagði jafnframt frá kvennadeild Mána sem vann kraftaverk þar. Reiðhöllin verður eign Sleipnismanna og mun hún efla mjög hestamennsku á félagssvæðinu, hún er lykill að reiðkennslu og æskulýðsstarfi. Reiðhöllin er jafnframt mikilvæg sýningar- og menningarhöll fyrir Suðurland. Reiðhöllin er líka mikilvæg fyrir hátíðir og uppákomur í ferðaþjónustu og mun nýtast vel fyrir landbúnaðinn sem slík. Það var ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um nafn á Reiðhöllina. Mikill velvilji ríkir í garð byggingarinnar meðal fyrirtækja og hafa nokkur þegar heitið stuðningi sínum. BM Vallá hefur nú heitið 1 milljón í auglýsingastyrk og ríður þar á vaðið. Aðkoma Landbúnaðarráðuneytisins liggur fyrir með framlagi úr reiðhallarsjóði uppá 25 milljónir, Árborg hefur heitið góðum stuðningi. Sleipnismenn ætla að byggja reiðhöll með samstilltu átaki og enn er langt til jóla ágætu félagar.
Með kærri kveðju,
Guðni Ágústsson